spot_img
HomeFréttirSkotsýning í DHL Höllinni og KR-ingar íslandsmeistarar!

Skotsýning í DHL Höllinni og KR-ingar íslandsmeistarar!

 

Það var gríðarlega spenna í loftinu þegar að Grindvíkingar mættu í DHL Höllina fullir sjálfstrausts eftir tvo góða sigra í röð. Ekki var tilefnið að verri endanum, oddaleikur og íslandsmeistaratitillinn í boði. Húsinu var lokað hálftíma fyrir leik þegar ljóst var að það var orðið uppselt og 2700 manns mættir í partíið. Fólk lét vel í sér heyra og það var algerlega frábær stemmning í Vesturbænum. Framan af.

 

Skemmst er frá því að segja að eftir jafnar upphafsmínútur stungu KR af og gjörsamlega keyrðu yfir Grindvíkinga, lokatölur 95 -56.

 

Stigahæstur KR-inga var fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson með 23 stig. Hann tók auk þess 9 fráköst og tapaði boltanum aldrei. Atkvæðamestur Grindvíkinga var Dagur Kár Jónsson sem skoraði 15 stig.

 

 

Gangur leiksins

 

Leikurinn var jafn fyrstu 5 mínúturnar en þegar að staðan var orðin 10-10 sögðu KR-ingar hingað og ekki lengra og skoruðu 9 stig í röð til þess að loka leikhlutanum. 19-10 eftir einn. Grindvíkingar skoruðu ekki í 5 og hálfa mínútu í lok hlutans og jafn leikur varð að ójöfnum á augabragði.

 

Grindvíkingar byrjuðu 2. Leikhluta af aðeins meiri krafti og settu Ingvi Þór Guðmundsson og Þorsteinn Finnbogason sinnhvorn þristinn, það var þó fyrir lítið þar sem Brynjar svaraði þeim báðum og þakið á leiðinni af DHL Höllinni. Síðasta karfa Grindvíkinga í leikhlutanum kom þegar að rúmar 8 mínútur voru eftir af honum og staðan var þá 28-18. KR-ingar skoruðu 21 stig í röð og staðan þá orðin 49-18 og leikurinn í raun búinn. Brynjar var stigahæstur KR-inga í hálfleiknum með 15 stig en Ingvi, þrátt fyrir að spila aðeins 6 mínútur var stigahæstur Grindvíkinga með 5.

 

Seinni hálfleikur var í rauninni bara formsatriði, engin áhlaup litu dagsins ljós og KR-ingar sigldu þessu bara örugglega í höfn. Það má segja að liðssigurinn hafi verið alger og í raunninn bara spegilmynd af tímabilinu, hokkískiptingar héldu uppi háu tempói og allir skiluðu sínu. Þegar KR liðið vinnur næstum 40 stiga sigur á meðan Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij hafa sig hæga í skorinu, Þá eru andstæðingarnir alltaf í vondum málum.

 

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR-ingar voru með algera yfirburði í flestum tölfræðiþáttum og þá sérstaklega þegar kom að skotum og skotnýtingu. Þeir skutu betur í 2gja stiga skotum (55% gegn 33%) og 3gja stiga skotum (32% gegn 22%). Þessi frábæra skotnýting af Grindvíkingum ekki mörg færi á fráköstum og tóku heimamenn heilum 23 fráköstum meira en gestirnir. (64-41)

 

Maður leiksins

Það er engin spurning hjá neinum hver var maður leiksins í kvöld, það var fyrirliðinn sjálfur og leikjahæsti leikmaður KR frá upphafi. Brynjar Þór Björnsson. Hann var allt í öllu í kvöld, skaut frábærlega, passaði boltann vel, spilaði góða vörn og hjálpaði líka til í fráköstunum, tók heil 9 stykki. Það var samt þannig að allt lið KR spilaði vel í kvöld og allir leikmenn liðsins áttu þátt í þessum sigri.

 

 

Ekki maður leiksins

Það er eiginlega ekki sanngjarnt að velja einn leikmann Grindavíkurliðsins sem átti mestan sök á tapinu. Allir lykilmenn liðsins voru einfaldlega daprir og er enginn saklaus af þessu tapi, nema kannski Ingvi Þór Guðmundsson.  Það verður þó að segjast eins og er að Lewis Clinch átti algerlega afleitan leik, hann klikkaði úr fyrstu 11 skotunum sínum og meira að segja fyrstu 3 vítunum, missti boltann nokkrum sinnum klaufalega og var lélegur í vörninni. Þetta var tíminn fyrir bestu leikmennina að stíga upp og hann gerði það alls ekki.

 

Kjarninn

KR-ingar eru einfaldlega með besta lið landsins í dag, á því liggur ekki nokkur vafi. Bikarmeistartitill, Deildarmeistaratitill og Íslandsmeistaratitill uppskeran eftir veturinn og geta menn vel við unað. Titlarnir orðnir 4 í röð og lykilmenn allir á besta aldri svo það er erfitt að sjá að þeir hægji mikið á sér á næsta ári.

 

Grindvíkingar eiga hrós skilið fyrir sinn vetur. Fóru langt í bikarnum, kláruðu tímabilið í 4. sæti og komust alla leið í oddaleik í úrslitum. Þeir stungu upp í alla körfuspekúlanta landsins (þar á meðal undirritaðann) og mega vel við una. Frábært tímabil að baki.

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn #1 (Bára)

Myndasafn #2 (Þorsteinn) 

Myndasafn #3 (Tomasz) – væntanlegt

Myndasafn #4 (Davíð) 

 

Umfjöllun SIgurður Orri Kristjánsson

Mynd Bára Dröfn Kristinsdóttir

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -