spot_img
HomeFréttirSkallagrímur með yfirhöndina í Fjósinu

Skallagrímur með yfirhöndina í Fjósinu

 
Skallagrímsmenn fengu Breiðablik í heimsókn í Fjósið á föstudagskvöld. Skallagrímsmenn byrjuðu leikinn vel, komust í 6:0 með þristum frá Birgir og Hafþóri. Breiðabliksmenn náðu þá að skora, og gengu sóknirnar vel hjá báðum liðum eftir það og lítið um að sóknarlið börðust um fráköst eftir misheppnuð skot. Staðan eftir 4 mínútur var 13:9 Skallagrím í vil. Á fimmtu mínútu fékk Birgir sína aðra villu og var tekinn útaf og inn á kom Ragnar til þess að stjórna leiknum og gerði hann það vel. Hafþór hélt áfram að setja niður körfur og Blikar byrjuðu að pressa en Skallagrímsmenn náðu að leysa það þokkalega.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26:17 Skallagrím í vil. Þegar þar er komið við sögu er Hafþór stigahæstur heimamanna með 13 stig, Flake með 8 stig og 5 fráköst. Þess má geta að þriggjastiga skotnýting Skallagrímsmanna var 50 % í þessum leikhluta. Stigahæstir Breiðabliksmanna eftir þennan fjórðung voru 3 leikmenn með 4 stig, þeir Aðalsteinn, Þorsteinn og Arnar. Þorsteinn var að auki með 5 fráköst.
 
Blikar byrjuðu annan leikhluta en Flake náði að komast inn í sendingu og brunaði upp völlinn. Skallagríms menn tóku skot en það geigaði. Breiðabliksmenn héldu aftur í sókn en Flake náði aftur boltanum af þeim og brunaði fram og skoraði. Liðin skiptust á að skora, en Skallagrímsmenn höfðu alltaf yfirhöndina. Það endaði með því að Breiðabliksmenn tóku leikhlé þegar staðan var orðin 30:17 Skallagrím í vil. Eftir leikhlé byrjuðu Blikar að saxa á Skallagrímsmenn og virtust ætla að komast inn í leikinn en það datt niður þegar Blikamaðurinn Þorsteinn fékk dæmda á sig tæknivillu. Halldór (uppalinn Blikamaður) skoraði þriggjastiga körfu fyrir Skallagrím og kom liðinu í stöðuna 45:30 þegar ein mínúta var eftir af öðrum leikhluta. Þar með virtust Skallagrímsmenn vera komnir með fína forrustu. En þá ákváðu Blikar að fara að sækja og sóttu grimmt á Skallagrím þessa síðustu mínútu. Eitthvað fór það í skapið á Flake, því þegar leikmenn voru að ganga inn í búningaklefa í hálfleik vildi dómarinn ná tali af Flake, vegna atviks sem átti sér stað síðustu mínútuna, en hann neitaði og fékk dæmda á sig tæknivillu. Staðan í hálfleik var 45:32 fyrir Skallagrím.
 
Þrijði leikhluti byrjaði með Blikum á vítalínunni, vegna tæknivillu Flakes í hálfleik. Breiðabliksmenn minnkuðu muninn niður í 10 stig eftir þessa byrjun. Hafþór hélt áfram að skora fyrir Skallagrím. Blikar reyndu allt sem þeir gátu til að ná Skallagrímsmönnum en ekkert gekk upp hjá þeim og tóku þeir því leikhlé. Eftir leikhléið skánaði leikur Breiðabliksmanna og byrjuðu þeir að spila svæðisvörn og Skallagrímsmenn áttu erfitt með að ná skotum. En það tók Skallagrímsmenn ekki langan tíma að finna veika punkta í vörn Breiðabliksmanna og náðu að skora úr fríum skotum. Skallagrímur tók leikhlé þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum og þá var staðan 61:47.
 
Skallagrímsmenn voru farnir að vera kærulausir í sóknaraðgerðum en eftir þetta leikhlé skánuðu sóknirnar. Hafþór setti niður flottan þrist þegar 3 sekúndur voru eftir af skotklukkunni og Raggi átti flotta sendingu á Flake sem skoraði einn undir körfunni. Blikar náðu aðeins að rétta sig af og skoruðu þegar tæpar 2 sekúndur voru eftir að þriðja leikhluta. Staðan eftir þriðja leikhluta var 66:55 fyrir Skallagrím.
 
Breiðabliksmenn héldu áfram að spila svæðisvörn í 4. leikhluta en Skallagrímsmenn voru farnir að finna svör við henni. Flake skoraði úr tveimur sóknum í röð þar sem hann náði að fiska villur að auki. Eftir það reyndu Blikar að sækja fastar og Pálmi tók þá leikhlé fyrir Skallagrím þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af leiknum. Skallagrímsmenn misstu boltann strax eftir leikhléið og Blikar skoruðu þrist. Staðan var 76:69. Skallagrímur náði að skora 2 stig og stálu svo boltanum en töpuðu honum um leið. Breiðabliksmenn héldu í sókn og Birgir fær sína 5.villu. Þá voru 3 mínútur eftir af leiknum.
 
Blikar spiluðu stífa vörn á Skallagrím sem endaði með því að skotklukkan rann út án þess að Skallar næðu skoti. Skallagrímsmenn svöruðu fyrir þetta með góðri vörn, ná boltanum og Halldór fékk opið skot og skoraði þrist. Breiðabliksmenn fengu 2 vítaskot sem þeir skoruðu úr þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum og staðan varð 78:71. Skallar héldu í sókn sem mistókst, Blikar héldu því í sókn og það endaði með því að Halldór braut á Breiðabliksmanni. Blikar fengu 2 víti og skoruðu úr öðru þeirra. Þá var staðan orðin 78:72 og ein mínúta eftir af leiktíma. Blikar tóku tíma og reyndu að leggja á ráðin. En það gekk illa hjá gestunum að stoppa Skallagrímsmenn sem skoruðu síðustu 4 stig leiksins. Lokatölur leiksins voru 82:72 fyrir Skallagrím. Það var vel mætt á þennan baráttuleik og leikmenn Skallagríms fögnuðu vel í leikslok. Fyrr í vikunni hafði serbneskur leikmaður sem verið hafði hjá Skallagrím frá miðjum september, verið látinn fara og mæddi því meira á ungu strákunum hjá Pálma. Það kom hinsvegar ekki að sök eins og úrslitin sýndu.
 
Stigahæstir hjá Skallagrím.
Darrell flake skoraði 26 stig og tók 17 fráköst
Hafþór Gunnarsson skroðai 26 stig og tók 6 fráköst
Halldór Jónsson skoraði 10 stig
Birgir Sverrisson 7 stig og Arnar Hrafn Snorrason 6 stig.
 
Stigahæstir Blika
Aðasteinn Pálsson 18 stig, Rúnar Pálmarsson 10 stig og Þorsteinn Gunnlaugsson 10 stig.
 
Umfjöllun: Ebbi
Ljósmynd/ Sigríður Leifsdóttir Hafþór Gunnarsson gerði 26 stig fyrir Skallana gegn Blikum.
Fréttir
- Auglýsing -