spot_img
HomeFréttirSjáðu frábæra takta Almars á Evrópumótinu í Búlgaríu - Mærður af helsta...

Sjáðu frábæra takta Almars á Evrópumótinu í Búlgaríu – Mærður af helsta greinanda ESPN “Ein besta frammistaða sumarsins”

Leikmaður undir 18 ára liðs Íslands Almar Orri Atlason hefur átt frábært mót með liðinu á Evrópumótinu í Búlgaríu. Liðið fór alla leið í undanúrslitin, þar sem það tapaði fyrir Svíþjóð í gær, en í dag leika þeir um þriðja sæti mótsins gegn Finnlandi.

Að öðrum ólöstuðum hefur Almar Orri verið einn besti leikmaður liðsins, skilað 19 stigum, 11 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik, en eftir riðlakeppni liðsins tilnefndi FIBA bæði Almar og Tómas Val Þrastarson í níu leikmanna úrvalslið riðlakeppninnar.

Það voru fleiri en FIBA sem tóku eftir frammistöðu Almars á mótinu, en helsti greinandi ungra leikmanna í heiminum Jonathan Givony hjá ESPN sá átta liða úrslita viðureign liðsins gegn Bosníu og mærði frammistöðu Almars í leiknum. Kallaði hana meðal annars eina bestu frammistöðu leikmanns þetta sumarið, þar sem Almar skilaði 22 stigum, 16 fráköstum, 6 stoðsendingum og 2 vörðum skotum í nokkuð sterkum sex stiga, 89-95 sigri Íslands.

Í gærkvöldi setti Jonathan svo inn tvö myndbönd þar sem búið var að klippa saman háu ljósin úr leikjum Almars á mótinu. Segir Jonathan þar að Almar hafi spilað sem framherji og leikstjórnandi á mótinu, hann sé gífurlega hæfileikaríkur og fjölhæfur stór maður sem geti skotið boltanum. Enn frekar segir hann að Almar sé óeigingjarn leikmaður sem hafi framúrskarandi sýn á leikinn.

Fréttir
- Auglýsing -