spot_img
HomeFréttirSigurður: Fólk má gera ráð fyrir látum og fjöri

Sigurður: Fólk má gera ráð fyrir látum og fjöri

12:00

{mosimage}

Keflvíkingurinn Sigurður Ingimundarson verður í eldlínunni í kvöld með kappana sína þegar grannarimma Keflavíkur og Njarðvíkur fer af stað kl. 19:15 í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ. Keflvíkingar eiga titil að verja en máttu þola ósigur gegn erkifjendum sínum í tvígang í deildarkeppninni. Hefur það eitthvað að segja í huga Sigurðar þegar í úrslitakeppnina er komið?

,,Við munum bara eftir síðasta leik hjá okkur, hann var góður,“ sagði Sigurður sem var vitanlega sáttur við að vera með heimaleikjaréttinn.

Njarðvíkingar eru með hávaxið lið og fyrirfram er búist við því að í mörg horn verði að líta hjá Sigurði Gunnari Þorsteinssyni, miðherja Keflavíkur. Sigurður vildi þó ekki meina að um einhverja teigyfirburði hjá Njarðvík væri að ræða.

,,Við eigum líka stóra menn og Almar Guðbrandsson er t.d. 210 sm hár hjá okkur svo við förum bara kokhraustir í teigbaráttuna,“ sagði Sigurður en aðspurður um hvar Keflavík hefði styrkleika fram yfir Njarðvík var Sigurður fljótur yfir á léttu hliðina.

,,Við eigum meiri peninga en Njarðvík,“ sagði Sigurður en honum tókst þó að gerast öllu alvarlegri. ,,Keflavík og Njarðvík eru ágætlega jöfn lið og við höfum ýmislegt fram yfir þá sem við ætlum að nota okkur í úrslitakeppninni,“ sagði Sigurður sem viðurkenndi að síðasti leikur liðanna hefði verið fjarri því góður.

,,Síðasti leikur liðanna var afspyrnu lélegur þar sem Njarðvík vann. Bæði lið voru ekki sátt með þann leik og kannski að bíða eftir úrslitakeppninni svo ég reikna með að það verði allt annað uppi á teningnum í kvöld. Fólk má gera ráð fyrir látum og fjöri,“ sagði Sigurður sem stýrði Keflvíkingum í 4. sæti deildarinnar, án erlendra leikmanna.

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -