Það má reikna með að 18. ágúst verði ekki í boði framvegis í Slóvakíu sem leikdagur við Íslendinga í körfubolta. Tveir sigrar í dag á þeim þar sem A landsliðið var rétt í þessu að vinna 81-75 sigur í æsispennandi leik.
Heimamenn byrjðu betur en upp úr miðjum fyrsta leikhluta komust Íslendingar yfir og leiddu með 8 stigum í hálfleik. Jón Arnór Stefánsson skoraði svo fyrstu körfuna í seinni hálfleik og þá komu 18 stig frá Slóvökum og fór að fara um Íslendinga, á þessum kafla klikkuðu Íslendingar á 11 skotum í röð utan af velli. Slóvakar leiddu með 5 fyrir lokahleikhlutann. Íslendingar voru svo frábærir í þeim leikhluta og unnu hann 27-16.
Jón Arnór Stefánsson var allt í öllu í sóknarleik liðsins í dag, skoraði 28 stig, Haukur Pálsson var einnig góður og skoraði 16 stig auk þess að taka 7 fráköst. Jakob Örn Sigurðarson skoraði 15 og Hlynur Bæringsson 13 auk þess að taka 11 fráköst. Helgi Már Magnússon skoraði 7 og Ægir Steinarsson 2.
Pavel Ermolinskij lék ekki með í dag þar sem hann fékk verk í nárann í upphitun.
Þess má geta að þetta var aðeins annar leikur þessara þjóða en fyrri leikinn sem leikinn var í Spisska Nova Ves árið 1999 vann Slóvakía 64-49.
Nú heldur liðið heim á leið og undirbýr sig undir að taka á móti Ísraelum í Laugardalshöll á þriðjudag kl 19:15 og um að gera að fylla Höllina og hvetja þessa baráttuglöðu drengi áfram.