TCU átti ekki í nokkrum vandræðum með lið Air Force skólans í bandarísku háskóladeildinni í nótt. Helena og félagar skelltu andstæðingum sínum 72-35 þar sem Helena var með 5 stig í leiknum, 8 fráköst og 6 stoðsendingar á þeim 25 mínútum sem hún lék.
Leikurinn í nótt var sá fyrsti hjá TCU í Mountain West riðlinum en öll fimm árin sem skólin hefur leikið í þessum riðli hefur TCU ávallt unnið sinn fyrsta leik. TCU hefur því unnið 11 af 14 leikjum sínum á tímabilinu en liðið tekur á móti Utah skólanum næsta laugardag á sínum heimavelli í Daniel Meyer Coliseum en viðureignir þessara liða hafa jafnan verið mikill barningur.
Þá unnu María Ben Erlingsdóttir og félagar í UTPA skólanum sterkan sigur á Texas A&M Corpus Cristi 84-76. Það er meiri munur en TCU vann Texas skólann með á dögunum en þann leik vann TCU 78-74 svo ljóst er að UTPA eru að bíta frá sér eftir miður gott gengi fyrir áramót.
María Ben fór á kostum í liði UTPA í leiknum og var stigahæsti leikmaður UTPA og næststigahæsti leikmaður vallarins. María setti niður 21 stig í leiknum og tók 2 fráköst á 31 mínútu.
Næsti leikur UTPA er gegn NJIT þann 14. janúar næstkomandi.
Ljósmynd/ María Ben á góðri stundu í búningsklefa UTPA en hún fór á kostum í nótt með skólaliði sínu.