spot_img
HomeFréttirSigrún: Líst mjög vel á liðið

Sigrún: Líst mjög vel á liðið

„Þetta gerðist allt virkilega hratt. Ég er búin að reyna að komast að úti í sumar og var orðin virkilega óþolinmóð þegar umboðsmaðurinn minn sagði mér að Norrköping hafði áhuga,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundadóttir í samtali við Karfan.is en hún er nýorðin leikmaður Norrköping Dolhpins í Svíþjóð.
 
 
Norrköping er eitt af sterkustu kvennaliðum Svíþjóðar en liðið varð síðast meistari tímabilið 2012-2013, lék í Eurocup á síðasta tímabili og varð þá einnig silfurlið sænsku úrvalsdeildarinnar.
 
„Ég ákvað að slá til og þá vorum við fljót að ná samkomulagi. Mér líst mjög vel á liðið sem hefur spilað til úrslita síðustu 2 ár. Ég þekki ekki mikið til deildarinnar en þó þekki ég aðeins til leikmanns sem ég spilaði á móti í Evrópukeppni smáþjóða sem er frá Austurríki og hef spjallað við hana og hún hefur aðeins sagt mér frá öllu saman,“ sagði Sigrún en hún þekkir vel það hlutverk sem henni er ætlað í Svíþjóð. Sigrún á fyrst og fremst að þétta raðir Norrköping í námunda við körfuna og bregða sér út í bakvarðastöðurnar þegar svo ber undir.
 
„Já ég þekki þetta mjög vel og líður best í þannig leik. Þannig að ég á eftir að njóta mín vel,“ sagði Sigrún sem lék í neðri deildum í Frakklandi tímabilið 2011-2012. „Svíþjóð er kannski öðruvísi bolti en maður þekkir kannski betur aðstæðurnar.“
 
Mynd/ Axel Finnur
  
Fréttir
- Auglýsing -