Miðherjinn Signý Hermannsdóttir er á ný gengin til liðs við Valskonur en hún hefur verið á mála hjá KR. Signý er einn reyndasti leikmaður landsins með ógrynni af landsleikjum á bakinu og vöktu vistaskipti hennar úr Val í KR á sínum tíma mikla athygli. Landsliðskonan er nú komin á heimaslóðir á nýjan leik og hugsar að það sé fínt að ,,enda heima.“
,,Já ég ætla að reyna að spila með Val í vetur. Er bara spennt fyrir að taka slaginn með þessum fína hóp fyrir gamla félagið. Ætli ég sé ekki bara komin hringinn og það er fínt að enda heima á Hlíðarenda,“ sagði Signý í snörpu samtali við Karfan.is og því má fastlega gera ráð fyrir að nú gangi í garð hennar síðasta tímabil.