12:00
{mosimage} {mosimage}
Það verður sannarlega stóráfangi í kvöld hjá dómurum leiks Keflavíkur og KR í undanúrslitum Iceland Expressdeildar karla. Þeir Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson munu báðir dæma sinn 1000. leik í mótum á vegum KKÍ.
Sigmundur sem er 41 árs hóf að dæma snemma árs 1995, nánar tiltekið 3. janúar þegar hann dæmdi leik Keflavíkur og ÍA í unglingaflokki karla og var meðdómari hans Víglundur Sverrisson.
Fyrsti Úrvalsdeildarleikurinn var svo 2. nóvember 1995 þegar Keflavík tók á móti Val. Leikinn dæmdi Sigmundur með Kristjáni Möller og í leikmannahóp Keflavíkur voru Sigurður Ingimundarson, Gunnar Einarsson og Elentínus Margeirsson en þeir eru einmitt allir með Keflavíkurliðinu í kvöld, Sigurður sem þjálfari og Gunnar og Elentínus sem leikmenn. Síðan þá hefur Sigmundur dæmt 310 leiki í Úrvalsdeild.
Hann tók alþjóðlegt dómarapróf í Amsterdam árið 2003 og hefur dæmt fjölda alþjóðlegra leikja.
Björgvin er 38 ára og hóf að dæma vorið 1992, fyrsti leikurinn var í 1. deild kvenna þann 29. mars og var það leikur KR og Grindavíkur, meðdómari var Brynjar Þór Þorsteinsson.
Fyrsti leikur í Úrvalsdeild var 6. febrúar 1994 í Grindavík þegar Grindavík tók á móti ÍA og sigraði 115-80. Meðdómari var hinn gamalreyndi Jón Otti Ólafsson sem hafði dæmt sinn 1000. leik rúmu ári áður og síðan þá hefur hann dæmt 319 leiki í Úrvalsdeild.
Hann tók alþjóðlegt dómarapróf í Riga í Lettlandi árið 2005 og hefur dæmt fjölda alþjóðlegra leikja.
Karfan.is náði tali af Sigmundi og Björgvini í tilefni af áfanganum og spurði þá nokkurra spurninga.
{mosimage}
Fyrst koma svör Björgvin:
Afhverju fórstu að dæma?
Ég þurfti að dæma sem leikmaður í 2.deild og heillaðist af þessu.
Fyrsti leikurinn? Eitthvað eftirminnilegt?
KR-Grindavík í deild kvenna með Brynjari Þór Þorsteinssyni
Eftirminnilegir meðdómarar?
Árni Freyr Sigurlaugsson,Einar Einarsson o. fl.
Eftirminnilegir leikmenn?
Pétur Guðmunds, Jón Kr, Teitur Örlygs, Valur Ingim. og fjöldinn allur af könum.
Eftirminnilegir leikir?
Fjórði leikur KR-Njarðvík í úrslitum 2006 og einnig fyrsti FIBA leikurinn.
Skondin atvik?
Leikur nr.999 (á sunnudaginn) KFÍ-Valur, einhver hljóp á fullri ferð á mig og ég steinlá og einn leikmaður datt yfir mig.
Munur á boltanum þá og nú?
Það er að sjálfsögðu hraðinn hann er orðinn svakalegur og það er ekki lengur ein hetja i hverju liði,það eru miklu fleiri sem eru mjög hæfileikaríkir.
Munur á starfsumhverfi dómara þá og nú?
Það er nú svipað,en hraðinn og yfirferðinn er svo mikill að við verðum að fara að innleiða þriðja dómarann.
Hvað áttu mörg ár eftir?
Mér finnst þetta svo gaman að ég held áfram meðan skrokkurinn leyfir.
{mosimage}
Og þá svör Sigmundar:
Afhverju fórstu að dæma?
Árið 1994 var Jón Emil Halldórsson úr Grindavík að vinna með mér og fékk mig til að fara á dómaranámskeið, því Grindvíkinga vantaði dómara. Ég fór á námskeiðið en þar sem ég er Njarðvíkingur stóð það mér næst að dæma fyrir mitt félag.
Fyrsti leikurinn? Eitthvað eftirminnilegt?
Fyrsti leikurinn sem ég dæmdi var í unglingaflokki karla 3. jan 1995. En það var svo 5. nóv sama ár að ég fékk hringingu frá Kristjáni Möller sem var þá staddur í Keflavík að fara að dæma leik Keflavíkur og Vals í DHL deild karla. Einhver misskilningur hafði orðið á milli dómara um hver ætti að dæma með honum og var hann því einn mættur og 10 mínútur í leik. Þegar ég mætti inn í salinn í íþróttahúsinu í Keflavík flautaði Kiddi til merkis um það að ein mínúta væri í að leikurinn hæfist. Kannski ekki besti undirbúningur fyrir minn fyrsta leik í efstu deild karla en leikurinn gekk vel og gaman að þessu eftir á.
Eftirminnilegir meðdómarar?
Það hefur verið bæði gaman og heiður að hafa fengið að dæma með dómurum eins og t.d. Jóni Otta Ólafssyni, Leif Garðarssyni, Kristni Albertssyni, Helga Bragasyni sem nú eru hættir og auðvitað þeim dómurum sem enn eru að dæma í dag , þetta er allt toppfólk.
Eftirminnilegir leikmenn?
Það er fjöldinn allur af skemmtilegum leikmönnum, bæði körlum og konum.
Eftirminnilegir leikir?
Bikarúrslitaleikur kvenna 1997, dæmdi hann einmitt með félaga Björgvin. Ég var ungur og reynslulítill og því í raun ekki tilbúinn í verkefnið og var ansi nálægt því að hætta að dæma eftir þann leik
Skondin atvik?
Man eftir skondnu atviki sem gerðist í undanúrslitum bikars kvenna í Grindavík í desember 1995. Fullt hús af fólki, Grindavík – Keflavík ég að dæma með Jóni Otta Ólafssyni. Boltinn festist milli hrings og spjalds, ekki mikið mál að redda því svo ég stekk og ætlað að slá boltann lausan en hann var fastari en ég ég hélt. Ég lét þetta ekki slá mig út af laginu, gerði aðra tilraun en rann þá í bleytu á gólfinu og endaði á afturendanum og uppskar dynjandi lófatak fyrir. Þá kom reynsluboltinn Jón Otti Ólafsson með kúst og losaði boltann.
Hrikalega fyndið eftir á, en alls ekki á meðan á þessu stóð.
Munur á boltanum þá og nú?
Það hafa orðið svakalegar framfarir á þessum árum, boltinn orðinn hraðari og fleiri menn með stór hlutverk í hverju liði. Hópur hæfileikaríku mannanna stækkar og stækkar. Hraðinn er líka orðinn slíkur að þriðji dómarinn fer að verða nauðsynlegur í íslenska boltanum.
Munur á starfsumhverfi dómara þá og nú?
Starfsumhverfi dómara finnst mér hafa breyst til hins betra hvað varðar að við erum með margt fólk í okkar hreyfingu sem gerir sér grein fyrir hversu okkar starf er erfitt og er ekki hlaupandi í fjölmiðla með gagnrýni heldur reynir að taka faglega á málunum.
Hvað áttu mörg ár eftir?
Hvað ég á eftir mörg ár er ómögulegt að segja en á meðan ég hef rosalega gaman af þessu og er heill heilsu held ég áfram. Einnig á meðan ég hef stuðning frá fölskyldunni en hann hefur reynst ómetanlegur frá því ég byrjaði að dæma
Þá náðum við í kappana sem dæmdu fyrstu leikina með Sigmundi og Björgvini. Brynjar Þór Þorsteinsson dæmdi eins og fyrr segir fyrsta leikinn með Björgvini. Brynjar hóf dómaraferilinn 1988 en hætti 1996 og er búsettur í Kaupmannahöfn í dag þar sem hann stundar nám.
Brynjar hafði þetta að segja um Björgvin og fyrsta leikinn:
„Ég man fyrst eftir Bjögga sem áhugasömum dómara sem vildi komast í fremstu röð sem hefur gengið eftir. Sá strax að með því að afla sér reynslu yrði hann góður dómari sem væri með allt á hreinu. Leikurinn sem við dæmdum fyrst saman gekk snurðulaust fyrir sig og engin vandamál komu upp og að vinna með Björgvini var mjög þægilegt og maður gat alltaf treyst á hann í leikjum sem er mjög mikilvægt fyrir dómara. Þá er hann góður félagi og alltaf gaman að hitta hann utan vallar. Ég óska honum innilega til hamingju með áfangann og vona að mun fleiri leikir séu framundan.”
Það var hins vegar Víglundur Sverrisson sem dæmdi með Sigmundi í Keflavík í byrjun janúar 1995. Víglundur hóf að dæma 1989 og dæmdi til 1995 þegar hann flutti til Danmerkur þar sem hann stundaði nám. Í dag býr hann í Reykjavík og sinnir sinni vinnu.
Víglundur hafði þetta að segja um Sigmund og fyrsta leikinn:
„Jú við smá upprifjun man ég vel eftir þessum leik , ég ”gamli maðurinn" (23 ára) var að hætta að dæma þetta ár og flutti til Danmerkur þar sem ég dæmi 1 ár áður en ég lagði dómaraskóparið á hilluna. Simmi kom þarna inn ferskur, hættur að eltast við boltann á vellinum og skellti sér í dómgæsluna á fullum krafti. Það var enginn spurning að þarna var framtíðar dómari á ferð, við dæmdum saman leik í unglingaflokk , Keflavík – ÍA , skemmtilegur og fjörugur leikur enda Keflavík með skemmtilegt og efnilegt lið á þessum tíma , ég man ekki betur en Jón Guðmundsson dómari hafi verið á bekknum hjá þeim sem þjálfari Keflavíkur . Simmi kom vel frá þessum leik öryggið uppmálað og klár til að ráðast í þetta á fullum krafti eins og hann hefur heldur betur sannað á síðustu 14 árum. Ég hef fylgst vel með honum á "stóra sviðinu" og er hann dómari sem ungir dómarar í dag ættu að taka sér til fyrirmyndar.
Til hamingju með áfangan Simmi.”
Þess má að lokum geta að þrír dómarar hafa náð 1000 leikja markinu áður en það eru Jón Otti Ólafsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Kristinn Óskarsson.
Það er ekki úr vegi að enda þennan pistil á því að rifja upp hvað heitustu dagblöð þess tíma sögðu um fyrstu leiki Björgvins og Sigmundar í Úrvalsdeild.
Björgvin – Grindavík – ÍA
Morgunblaðið : Dómarar: Jón Otti Ólafsson og Björgvin Rúnarsson. Dæmdu auðdæmdan leik vel.
DV: Dómarar: Jón Otti Ólafsson og Björgvin Rúnarsson, dæmdu vel.
Sigmundur – Keflavík – Valur
Morgunblaðið: Dómarar: Kristján Möller og Sigmundur Herbertsson – dæmdu mjög vel.
DV: Dómarar: Kristján Möller og Sigmundur Herbertsson, ágætir
Myndir: [email protected] og Gunnar Freyr Steinsson