spot_img
HomeFréttirSíðbúin kveðjugjöf fyrir Júdas-bræður

Síðbúin kveðjugjöf fyrir Júdas-bræður

Fjölnir hoppaði upp í 7. sæti Iceland Express deildar karla í gærkvöldi með 103-95 sigri á Snæfell sem fyrir vikið eru í 9. sæti deildarinnar með 6 stig. Nathan Walkup og Árni Ragnarsson fóru mikinn í liði Fjölnismanna og skoruðu saman 61 af 103 stigum Fjölnis í leiknum.
Örvar Þór Kristjánsson þjálfari Fjölnis var að vonum kátur með sigurinn í Dalhúsum:
 
,,Við erum mjög sáttir með þetta en leikurinn var bæði skrýtinn og kaflaskiptur en sigur okkar var samt sanngjarn. Við náðum upp 20 stiga forskoti en fórum smávegis á taugum þegar Snæfell tók 18-2 kafla gegn okkur en lönduðum samt sanngjörnum sigri,“ sagði Örvar og var vissulega ánægður með þá Walkup og Árna.
 
,,Nathan og Árni voru frábærir og ég var ánægður með heildarframlag liðsins, Hjalti Vilhjálmsson kom sterkur inn af bekknum og barði strákana áfram. Sigurinn var mikilvægur og gefur liðinu sjálfstraust. Þá var ég ánægður með stuðninginn í stúkunni en hefði engu að síður viljað sjá fleiri leggja leið sína á leikinn. Þeir sem mættu stóðu sig vel en þetta mætti vera meira,“ sagði Örvar.
 
Fjölnir byrjuðu leikinn með Árna Ragnars inn á og hefur hann verið frá undanfarna leiki en í gærkvöldi átti hann stórleik í vörn og sók, skoraði 28 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.
 
Fjölnisstákar voru með góða vörn í gangi á Snæfell sem virkaði vel og héldu þeim niðri og voru að þvinga þá í erfið skot sem voru ekki að detta ofaní og nýttu Fjölnismenn sér það vel hinumegin á vellinum. Snæfell átti erfitt með að svara þessu og um tíma var kominn 20 stiga munur þegar Ingi Þór tekur leikhlé fyrir Snæfell þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum og fer að pressa allan völlinn.
 
Fjölnismenn voru þó nokkra stund að finna leið úr pressunni og náðu Snæfellingar að minnka muninn í 6 stig þegar lítið var eftir og settu nokkrar þriggjastiga í röð en þá tók Örvar leikhlé fyrir Fjölni og fór aðeins yfir málin. Eftir leikhléð fengu gulir auðveld sniðskot aftur og aftur einir undir körfunni þar sem leikmenn Snæfells voru að pressa boltann framarlega á vellinum og endaði þetta með verðskulduðum sigri Fjölnismanna.
 
Nú er Ægir Þór Steinarsson endanlega horfinn á braut úr Grafarvogi og kominn til Bandaríkjanna í nám og körfubolta. Yfirvofandi brotthvarf hans lá eins og stóri dómur á Fjölni alla leiktíðina og ágerðist þegar Ægir meiddist snemma leiktíðar. Erfið staða að vinna úr fyrir Grafarvogsliðið enda Ægir á meðal sterkustu leikmanna þjóðarinnar. Þjálfarinn, Örvar Þór, er jafnan léttur á manninn og gerði ekki mikið mál úr þessari stöðu.
 
,,Við töluðum um það fyrir leik að gefa Ægi og Tómasi síðbúna kveðjugjöf enda vissum við að hann og Tómas myndu fylgjast með leiknum á netinu úti í Bandaríkjunum. Við erum afar stoltir af þeim þarna úti þó við köllum þá stundum Júdas-bræður,“ sagði Örvar gamansamur og áréttaði að nafngiftin Júdas-bræður væri aðeins glens og gaman. Ægir og Tómas eru eins og mörgum ætti að vera kunnugt afurð Dalhúsa og leika nú saman með Newberry háskólanum í Bandaríkjunum. Örvar gerðist svo öllu alvarlegri þegar við ræddum við hann um næstu leiki.
 
,,Næsti leikur er heimaútileikur fyrir mig ef svo má að orði komast. Við mætum Njarðvík í Ljónagryfjunni en eigum fyrst ÍA í bikarnum á sunnudag. Nú gírum við okkur upp í það verkefni og klárum kaflann fyrir jól með stæl,“ sagði Örvar sem er fæddur og uppalinn Njarðvíkingur og fær vísast höfðinglegar mótttökur þegar hann snýr aftur í Ljónagryfjuna.

Stigaskor (Fjölnir 103-95 Snæfell)

Fjölnir: Nathan Walkup 33/11 fráköst/7 stoðsendingar, Árni Ragnarsson 28/7 fráköst/7 stoðsendingar, Calvin O’Neal 15/7 fráköst/5 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 11/5 fráköst, Hjalti Vilhjálmsson 8/7 fráköst, Trausti Eiríksson 4, Jón Sverrisson 4/6 fráköst, Gústav Davíðsson 0, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 0, Halldór Steingrímsson 0, Tómas Daði Bessason 0, Haukur Sverrisson 0. 
 
Snæfell: Quincy Hankins-Cole 29/13 fráköst, Marquis Sheldon Hall 26/12 fráköst/7 stoðsendingar, Jón Ólafur Jónsson 16/5 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 8, Sveinn Arnar Davidsson 7/5 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 5, Ólafur Torfason 4, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Snjólfur Björnsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Egill Egilsson 0, Daníel A. Kazmi 0. 
 
 
Umfjöllun/ Jón Björn og Karl West  
Fréttir
- Auglýsing -