spot_img
HomeFréttirShouse í sérflokki gegn Sköllum

Shouse í sérflokki gegn Sköllum

Stjörnumenn tóku á móti Skallagrímsmönnum í Ásgarði í gærkvöldi í þriðju umferð Fyrirtækjabikarsins. Skallagrímsmenn höfðu sigrað báða leiki sína fram að þessu en Garðbæingar tapað einum og sigrað einn.
 
Jafnræði var með liðunum til að byrja með en Stjörnumenn sigu þó fljótt fram úr með meistara Justin Shouse í broddi fylkingar ásamt Fannari fyrirliða þeirra. Garðbæingar hertu vörnina eftir því sem á leið og Skallar töpuðu boltanum ítrekað klaufalega. Heimamenn fengu frekar ódýr stig en piltarnir frá höfuðstað Vesturlands þurftu að hafa meira fyrir hlutunum í sóknarleiknum. Stjarnan var með góð tök á leiknum og leiddi 29-18 eftir fyrsta leikhluta.
 
Ekki var mikil breyting á í öðrum leikhluta. Vörn Skallagríms var frekar döpur og ein hindrun dugði oft til að galopna vörn þeirra. Jafnframt var sóknarleikur þeirra fremur stirður. Justin Shouse hefur greinilega jafnað sig eftir meiðsli og sýndi yfirburði sína á vellinum, skellti niður níu stigum í 2. leikhluta og gerði nánast það sem honum datt í hug. Stjarnan fór með nokkuð þægilega 55-41 forystu til búningsherbergja.
 
Gestirnir mættu nokkuð sprækir eftir leikhléið og minnkuðu forskot heimamanna lítið eitt. Þá skiptu Garðbæingar um gír og tóku góðan sprett. Um miðbik 3. leikhluta var munurinn orðinn 21 stig, 73-52. Fátt benti til þess að Skallarnir kæmu sér aftur inn í leikinn en Stjarnan hafði 16 stiga forskot fyrir síðasta fjórðunginn, 75-59.
 
Borgnesingar börðust ágætlega í fjórða leikhluta en líkt og fyrr í leiknum hleyptu Garðbæingar gestum sínum ekki langt. Munurinn hélst í kringum 20 stigin og sigur heimamanna í raun aldrei í hættu. Öruggur sigur Stjörnupilta, 94-77.
 
Af þessum leik að dæma virðast Stjörnumenn vera komnir skrefinu lengra í undirbúningi sínum fyrir alvöruna. Leikur þeirra var ágætur á köflum og margir leikmenn liðsins áttu góðan leik. Fyrrnefndur Justin Shouse var í algjörum sérflokki með 18 stig og 11 stoðsendingar. Fannar skilaði 16 stigum og hirti 7 fráköst. Marvin átti einnig góðan leik, 16 stig og 8 fráköst. Hinir einstaklega vel skóuðu bræður, D. Kár og D. Lár Jónssynir sýndu einnig lipra takta og skoruðu 13 stig hvor.
 
Skallagrímsmenn þurfa þó ekki að örvænta þrátt fyrir tap. Benda má á að Paxel var ekki í leikmannahópi Skallagríms og munar um minna. Án þess að gagnrýna nokkurn má einnig ljóst vera að Borgnesinga vanhagar um öflugan leikstjórnanda en Pálmi, þjálfari Skalla, hefur væntanlega í hyggju að fá erlendan leikmann í þá stöðu. Í liði Borgnesinga stóð enginn sérstaklega upp úr en hinn nýi og stæðilegi leikmaður Skallagríms, Grétar I. Erlendsson, skoraði 13 stig og hirti 10 fráköst. Davíð Ásgeirsson setti einnig 13 stig og nafni hans Guðmundsson var með 10 ásamt Sigurði Þórarinssyni og Agli Egilssyni.
 
Stigaskor Stjörnumanna:
Justin Shouse 18/11 stoðs. Fannar Helgason 16/7 fráköst. Marvin Valdimarsson 16/8 fráköst. Dagur K. 13. Daði L. 13. Sæmundur Valdimarsson 8. Kjartan A. Kjartansson 8. Magnús Guðmundsson 2.
 
Stigaskor Skallagríms:
Grétar I. Erlendsson 13/10 fráköst. Davíð Ásgeirsson 13. Egill Egilsson 10/7 fráköst. Sigurður Þórarinsson 10. Valur Sigurðsson 9. Davíð Guðmundsson 8. Trausti Eiríksson 6. Orri Jónsson 6. Kristján Ómarsson 2.
 
 
Umfjöllun/ Kári Viðarsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -