Það er ljóst að Justin Shouse mun leika sitt fjórða tímabil með Stjörnunni, en samningar náðust við Justin víkunni. Eins og margir vita fékk Justin íslenskan ríkisborgararétt í júní síðastliðnum. www.stjarnan-karfa.is greinir frá.
Justin kemur til með að þjálfa yngri flokka hjá deildinni eins og áður, enda er hann afar vinsæll meðal yngri iðkenda Stjörnunnar og hefur gengið afar vel í þjálfun frá því hann kom til liðs við Stjörnuna árið 2008.
Justin sagðist afar spenntur fyrir tímabilinu í samtali við fréttaritara stjarnan-karfa.is og leist vel á komandi vetur með Stjörnunni en á síðustu leiktíð stýrði hann Stjörnunni inn í úrslit gegn KR sem varð Íslandsmeistari í þremur leikjum.
,,Við erum bara ánægðir að fá Justin aftur. Hann er þekkt stærð í íslenskum körfubolta og æfir af krafti fyrir tímabilið og ætlar að koma í toppformi. Hann vill alveg örugglega gera eina atlögu enn að titlinum enda komist nálægt honum tvisvar,“ sagði Gunnar Kristinn Sigurðsson formaður KKD Stjörnunnar í snörpu samtali við Karfan.is.