spot_img
HomeFréttirSex stig í pottinum

Sex stig í pottinum

Iceland Express deild kvenna hefst á nýjan leik þann 9. janúar 2010 með heilli umferð. Þrjár umferðir eru eftir og sex stig í pottinum. Topplið KR þarf aðeins að vinna einn leik til viðbótar til að tryggja sér sigur í venjulegri deildarkeppni áður en deildinni verður skipt upp í A- og B-riðil. 
Til þess að Hamar nái toppsætinu af KR áður en deildinni verður skipt upp þarf KR að tapa öllum þremur deildarleikjum sínum sem eftir eru og Hamar þarf að vinna KR í DHL-Höllinni með 13 stiga mun. Miðað við gengið á KR-liðinu undanfarið í deildinni er allt eins líklegt að KR tapi öllum þessum leikjum og undirritaður taki einn síns liðs á sig að greiða niður Icesave-skuldbindingarnar.
 
Njarðvík og Haukar eru í hörkubaráttu um síðasta sætið í A-riðli og fræðilega eiga Snæfellingar enn möguleika á því að komast í A-riðil en Valskonur ekki þar sem þær sitja á botninum með 4 stig. Til að skófla Snæfell út úr myndinni í A-riðli þarf Keflavík aðeins að vinna einn leik af næstu þremur. Keflavík er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en fast á hæla þeirra koma Njarðvík og Haukar með 8 stig og þar hafa Njarðvíkingar betur innbyrðis gegn Haukum.
 
Grindavík hefur 14 stig í 3. sæti og þurfa aðeins einn sigur til viðbótar til að gulltryggja sæti sitt í A-riðlinum. KR og Hamar eru örugg um sæti sín í A-riðli.
 
Deildarleikir KR fyrir skiptingu:
 
Snæfell-KR
KR-Hamar
Valur-KR
 
Deildarleikir Hamars fyrir skiptingu:
 
Hamar-Grindavík
KR-Hamar
Hamar-Snæfell
 
Leikir 12. umferðar þann 9. janúar 2010:
 
Snæfell-KR
Hamar-Grindavík
Keflavík-Njarðvík
Valur-Haukar
 
Fréttir
- Auglýsing -