Í tíu liða deild þar sem leikin er fjórföld umferð getur álagið verið töluvert og þó stutt sé á milli leikja þá láta landsliðsmennirnir okkar í Svíþjóð sig ekki vanhaga um nútímatækni eins og farsíma. Í gegnum einn slíkan náðum við í skottið á Helga Magnússyni sem var að storma út af æfingu hjá 08 Stockholm HR, löngu orðinn afhuga sigri á meisturum Sundsvall Dragons í þríframlengdum leik í gær enda eru Södertalje Kings næstir á dagskrá, annað kvöld! Við fengum Helga þó aðeins til að reifa leikinn gegn Drekunum enda ekki mikið um Íslendingaslagi í Evrópuboltanum þó þeim hafi ánægjulega fjölgað gífurlega þetta tímabilið.
,,Þetta var sætt og leikurinn var rosalegur, sérstaklega í ljósi þess að við áttum að vera löngu búnir að klára hann enda 5 stigum yfir þegar voru þarna c.a. 20 sekúndur eftir af venjulegum leiktíma,“ sagði Helgi þegar við náðum á hann. Helgi bar félögum sínum úr landsliðinu þó góða söguna.
,,Kobbi var alltaf að draga þá til baka,“ og er eins og margir vilja meina í ,,Kobbaformi“ en leikformið er kennt við kappann sjálfan því ef þú ert í Kobbaformi, skv. heimildum Karfan.is, þá svitnar þú varla við þrjár framlengingar. Pavel var líka góður og Hlynur með meiri en 20 fráköst svo þessir þrír leikmenn eru liðið, Sundsvall á þó inni ameríkana,“ sagði Helgi en 08 ætlar að vera án Bandaríkjamanns þetta tímabilið.
,,Mér skilst að svo verði. Ég vona að við förum ekki að hlaða á okkur leikmönnum en þjálfarinn segir að þetta sé hópurinn. Kannski auðvelt að segja það þegar þú hefur unnið sex leiki í röð en það kann að breytast ef við förum að tapa. Við skulum bara vona að liðið fari ekki í einhverja kanavitleysu nema það sé einhver liðsspilari eins og t.d. Jason Dourisseau, þetta er samt lottó í Svíþjóð eins og á Íslandi.“
Annað tímabilið í röð er Helgi að landa samning svona næstum því mínútu fyrir fyrsta uppkast í deildinni, í fyrra með Uppsala, nú hjá 08. ,,Ég var reyndar búinn að æfa aðeins með liðinu en var á leiðinni heim og það var nánast frágengið. Ég æfði með 08 og fékk að halda mér í formi en það gekk vel í æfingaleikjum og á síðustu metrunum buðu þeir mér samning svo maður þekkti vel inn á allt liðið þegar samningurinn kom.“
Aðspurður út í umfjöllunina ytra: ,,Það er ekkert alltof mikil umfjöllun um körfuna hérna en þegar hún kemur þá er það vel gert og þá er einnig talað vel um íslenska framlagið enda erum við að standa okkur vel.“
08 Stockholm HR mætir Södertalje Kings á morgun á heimavelli og leika svo aftur 18. desember gegn Norrköping Dolphins en eru þá komnir í stutt frí eða til 27. desember þegar þeir mæta LF Basket og er það síðasti deildarleikur liðsins á árinu.