spot_img
HomeFréttirSetti nokkra þrista úr horninu

Setti nokkra þrista úr horninu

16:35 

{mosimage}

Einu reynslumesta byrjunarliði sögunnar var stillt upp í B-liði Keflavíkur sem mætti bikarmeisturum Grindavíkur í bikarkeppni KKÍ og Lýsingar í fyrrakvöld. Í liðinu voru þeir Jón Kr. Gíslason, Falur Harðarson, Guðjón Skúlason, Sigurður Ingimundarson og Albert Óskarsson. Samanlagt eiga þessir menn 1507 úrvalsdeildarleiki að baki sem og 451 A-landsleik.

„Þetta var hörkuleikur enda finnur maður vel fyrir því í dag," sagði Guðjón við Fréttablaðið í gær. „Maður getur varla gengið upp stiga og ég veit að þetta verður erfið vika," sagði hann og hló.
Fjölmargir áhorfendur lögðu leið sína í sláturhúsið í Keflavík til þess að horfa á þetta stjörnum prýdda lið sem lék síðast saman árið 1991. Og reynsluboltarnir gáfu ekkert eftir og komust meira að segja yfir í þriðja leikhluta. En úthaldið reyndist meira hjá Grindvíkingum sem skildi á milli að lokum.

„Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og slá bikarmeistarana úr leik," sagði Guðjón sem spilaði nokkra leiki með Keflavík í fyrra vegna manneklu. Það segir hann aðallega hafa verið gert til málamynda.
„Ég hef lítið sem ekkert æft í vetur og þarf meiri undirbúning en það fyrir svona leik."

Hann sýndi þó gamalkunna takta og setti eina fjóra þrista, þar af einn eða tvo úr horninu að eigin sögn.
„Þetta var algert topplið og við sáum að við verðum að hóa þessum hópi saman aftur. Ætli við þurfum þó ekki að velja okkur aðeins slakari mótherja þá."

Guðjón hyggur ekki á frekari afrek í körfunni í vetur þrátt fyrir allt. „Það er ágætt að vita hvar maður stendur. En ef við ætluðum að spila eitthvað meira þyrfti að minnsta kosti tveggja vikna hlé á milli leikja."


Grindavík sigraði að lokum í leiknum, 116-88.

 

Frétt af www.visir.is

Mynd: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -