spot_img
HomeFréttirSeiglusigur Njarðvíkinga gegn bikarmeisturunum

Seiglusigur Njarðvíkinga gegn bikarmeisturunum

 

Það var heldur betur spenna í Njarðvíkinni í gærkvöldi þegar heimamenn tóku á móti bikarmeisturum Tindastóls í Dominos karla. Svo mikil var spennan að það þurfti að knýja tvær framlengingar svo leikurinn kláraðist og á síðustu andartökum leiksins dansaði knötturinn á hring Njarðvíkinga en skot Helga Freys Margeirssonar vildi ekki ofaní þannig að 103:102 sigur heimamanna varð niðurstaða kvöldsins. 

 

Það besta frá Njarðvík í vetur: 
Ólíkt flestum leikjum Njarðvíkinga þá hófu þeir leikinn í gær af miklum krafti. Í raun sýndu þeir á sér allt það besta sem liðið hefur uppá á að bjóða þessar fyrstu 10 mínútur leiksins. Vörnin steig varla feilspor og menn verulega peppaðir í verkefni kvöldsins. Sóknin virkilega hreyfanleg og leikmenn voru að hitta vel úr skotum sínum.  Þessi frammistaða virtist koma gestunum úr Skagafirðinum í opna skjöldu því þeir voru gersamlega heillum horfnir. 

 

Tindastóll hertu tökin: 
Eftir afar erfiðar fyrstu 10 mínútur leiksins spýttu Tindastólsmenn í lófana og hófu leikinn.  Vörn þeirra hertist til muna og pressuðu þeir stífar á leikmenn Njarðvíkinga. Hjá Njarðvíkingum gerðist það að Ragnar Nathanaelson meiddist þegar hann datt á bakið og spilaði hann lítið í fyrri hálfleik og óvíst var með þáttöku hans það sem eftir lifði leiks.  En hægt og bítandi náðu Tindastóll að minnka muninn niður og í þriðja fjórðung komust þeir loksins yfir með þrist frá Axel Kárasyni.  Eftir það virtust gestirnir vera komnir með ágætis tök á leiknum og stefndu á að sigla sigri í land og um leið koma sér í þá stöðu að eiga heimavallarrétt út úrslitakeppnina. 

 

Háspenna!
Á lokaspretti leiksins og með mikilli seiglu náðu Njarðvíkinga að koma sér aftur í leikinn með ótrúlegum hætti og þrjósku.  Þegar allt stefndi jafnvel í að Njarðvíkingar ætluðu sér að næla í sigurinn var það Helgi Freyr Margeirsson sem slökkti í þeim draumi með risa þristum, bæði í lok venjulegs leiktíma og í fyrri framlengingunni.  Og þegar sekúndur voru eftir var það auðvitað Helgi Freyr sem tók lokaskotið og á meðan boltinn var í loftinu mátti heyra saumnál detta í húsinu þar sem jú flestir bjuggust við því að þar væri loka rítingurinn í sigurvon Njarðvíkinga. Sem fyrr segir þá skoppaði boltinn á hringnum og svo aftur en svo lak hann framhjá og Njarðvíkingar fögnuðu gríðarlega vel. 

 

Hvaða áhrif hefur þessi leikur?
Í raun, þannig séð engin fyrir Njarðvíkinga deildarlega séð. Sæti 1 til 4 og svo 5 -8 eru ráðin og aðeins formsatriði hverjir mæta hverjum í fyrstu umferð.  Að því sögðu er það risa stórt skref fyrir Njarðvíkinga að leggja bikarmeistarana að velli og um leið klára slíkan leik með sigri. Ef eitthvað þá var þetta akkúrat sem að læknirinn skrifaði uppá fyrir liðið til að þjappa hópnum saman sem hefur verið í lægð eftir þrjá tapleiki í röð fyrir þennan.  Fyrir Tindastól var þetta þeirra síðasta hálmstrá til að krækja sér í deildarmeistaratitilinn. Sigur hefði þýtt að þeir væru langt komnir með það verkefni en nú blasir við að Haukar muni hampa þeim titli og eiga heimaleikjarétt út úrslitakeppnina. 

 

Fjarverandi:
Sigtryggur Arnar Björnsson var fjarverandi fyrir Tindastól í gær og enn eru nárameiðsli að hrjá kappann. Í samtali við Israel Martin þjálfara liðsins í gær sagðist hann ekki vilja þjösnast á Arnari korter fyrir úrslitakeppni og bjóst alveg við því að hann myndi lika hvíla í næsta leik.  Oddur Kristjánsson var svo fjarverandi fyrir Njarðvíkinga annan leikinn í röð en hann er meiddur í baki og óvíst hvenær hann muni spila aftur. 

 

Einstaklings framtök: 
Af einstaklingum þá voru það Pétur Rúnar (12 stoðsendigar – 18 stig) og Antonio Hester (35 stig – 17 fráköst) sem voru atkvæðamestir hjá Tindastól en hinsvegar virtust allir vera að leggja sitt af mörkum og þá sérstaklega varnarlega. Það munaði griðarlega fyrir Tindastól þegar Pétur fékk sína 5. villu í framlengingunni.  Hjá Njarðvík var að venju Terrell Vinson að skora grimmt og átti flottann leik með 31 stig. Á ögur stundu undir lok leiksins þegar hálfgerð deyfð var yfir Njarðvíkingum kom Logi Gunnarsson (24 stig) af bekknum og setti niður mikilvæg 5 stig og var með stolinn bolta sem kveikti þann neista sem vantaði hjá Njarðvíkingum. Maciek Baginski (24 stig) stýrði svo liðinu á lokametrunum af festu. 

 

Spilamennskan
Það er þetta "hefði" sem allir spyrja sig eftir leik.  Hefðu Tindastóll byrjað þennan leik á þeirri vörn sem þeir léku allt frá öðrum fjórðung þá hefðu þeir líkast til tekið sigurinn. Hefðu Njarðvíkingar leikið þann leik sem þeir hófu fyrstu 10 mínúturnar þá hefðu Tindastólsmenn aldrei séð til sólar í þessum leik. En svo fór sem fór.  Bæði lið geta lært af þessum leik og stillt sig af fyrir þann stóra dansleik sem framundan er.  Undirritaður fer hinsvegar ekki af því og hefur sagt það áður að fyrir Njarðvíkinga þá spila þeir lang best þegar þeir keyra upp hraðann í sínum leik í stað þess að hægja á og leyfa vörn andstæðinga að stilla upp. 

 

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -