spot_img
HomeFréttirSeiglusigur hjá Hamri/Selfoss á slökum Stólum

Seiglusigur hjá Hamri/Selfoss á slökum Stólum

07:30

{mosimage}

 

(Byrd með boltann. Hann gaf 12 stoðsendingar í leiknum.) 

 

Sunnlendingarnir í Hamri/Selfossi mættu á Krókinn í gærkvöldi og öttu kappi við heimamenn í Tindastóli. Byrjunarliðin voru, hjá Tindastóli: Lamar, Svavar, Ísak, Vladimir og Zeko. Hjá gestunum byrjuðu hinsvegar: Byrd, Svavar, Friðrik, Bojan og Lárus.


Stólarnir byrjuðu leikinn heldur betur, en stigin hrúguðust ekki beint inn fyrstu mínúturnar. Eftir rúmar 5 mínútur var staðan 8-0. Þá braut Lárus loks ísinn fyrir H/S með tveggja stiga körfu og síðan skoraði Bojan þrist. Þá tók Lamar sig til og setti þrjá þrista í röð fyrir Stólana og staðan orðin 19-7. Marvin svaraði með 5 stigum fyrir gestina, en Svavar Atli gerði síðustu körfu heimamanna. Staðan í lok fyrsta fjórðungs var því 21-12.

Stólarnir héldu forskotinu langt fram í annan leikhluta og þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar af honum var staðan 37-27. Síðustu mínúturnar dróg H/S aðeins á og Bojan átti þrist í lokin og staðan orðinn 42-36 í hálfleik. Hamar/Selfoss fór í svæðisvörn í öðrum leikhluta, en heimamenn fundu oftast svar við því. Zeko skoraði mest heimamanna í leikhlutanum eða 9 stig. Lárus dró hinsvegar vagninn fyrir gestina sóknarlega og skoraði 10 stig í leikhlutanum. Útlitið nokkuð bjart hjá áhorfendum sem voru með allra flesta móti í gærkvöldi.

 

{mosimage}

 


Í þriðja leikhluta var hinsvegar komið að þætti Friðriks Hreinssonar í leiknum. Af fyrstu 20 stigum H/S í leikhlutanum skoraði hann 15 og gestirnir komnir í 50-56. Lítið gekk í sókninni hjá Stólunum og H/S lokuðu vel á þá með Byrd í miðri vörninni. Vörnin var ekki eins góð hinum megin og Hamar/Selfoss gekk á lagið og náðu fljótlega forystu í leikhlutanum. Stólarnir hleyptu þeim þó ekki langt fram úr sér og staðan eftir þrjá leikhluta 62-64.


Í síðasta leikhlutanum sást vel seiglan í Hamar/Selfoss liðinu. Þeir juku forskotið smátt og smátt og voru komnir með 8 stiga forskot þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka og Byrd nýbúinn að setja einn þrist, 73-81. Gunnlaugur svaraði með þriggja stiga körfu fyrir Stólana og Ísak skoraði tvö stig og veik von kviknaði í Síkinu. Hamar/Selfoss setti hinsvegar næstu fimm stig og munurinn aftur 8 stig og sigurinn seilingar, 78-86. Stólarnir brutu á gestunum sem voru komnir með bónus, en þeir klikkuðu ekki á vítalínunni og munurinn náðist ekkert niður hjá Stólunum. H/S skoruðu síðustu 4 stigin og munurinn 11 stig í leikslok, 83-94.


Hamar/Selfoss voru seinir í gang í leiknum en unnu sig svo inn í leikinn og náðu að spila sinn leik í síðari hálfleik. Stólarnir voru hinsvegar klaufar að ganga ekki til hálfleiks með meiri mun. Þeir áttu hinsvegar slakan síðari hálfleik og alltof margar sendingar rötuðu ekki rétta leið og George Byrd var sem klettur í vörninni sem þeir strönduðu alltof oft á. Hann ásamt Bojan og Lárusi voru bestu menn H/S. Friðrik var sjóðandi heitur á kafla og Marvin átti ágætis spretti.

 

Hjá heimamönnum var Lamar stigahæstur með 22 stig og síðan Zeko með 20 stig. Enginn Stólanna átti góðan leik en Lamar, Zeko og Ísak komust best frá honum. Stigahæstur Hamars/Selfoss var Friðrik með 22 og síðan komu Bojan og Lárus með 19 stig hvor. Athygli vekur að Byrd var með 12 stoðsendingar í leiknum.

 

{mosimage}


Nokkrar tölur úr leiknum:

8-0, 16-7, 21-12, 26-18, 33-22, 38-31, 42-36, 47-46, 50-56, 58-58, 62-64, 67-70, 71-76, 73-81, 78-86, 83-94.


Með sigrinum komst Hamar/Selfoss uppfyrir Tindastól í sjöunda sætið, en bæði lið eru með 12 stig, en H/S hefur betur í innbyrðis viðureignum liðanna.

 

Frétt og myndir af www.skagafjordur.net/karfan

Myndir tóku þeir Adam Smári og Elvar

Fréttir
- Auglýsing -