spot_img
HomeFréttirSalbjörg Ragna til liðs við Njarðvíkinga

Salbjörg Ragna til liðs við Njarðvíkinga

 
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, eða Dalla eins og hún er yfirleitt kölluð, hefur samið við kvennalið Njarðvíkur og mun leika með liðinu á komandi tímabili. www.umfn.is greinir frá.
Dalla, sem er tvítug að aldri, er upprunalega frá Kormáki á Hvammstanga, en undanfarin ár hefur hún leikið með liði Laugdæla í 1. deildinni og jafnan verið besti maður liðsins.
 
Þá hefur hún leikið með yngri landsliðum Íslands og unnið til verðlauna í hástökki og kúluvarpi í frjálsum íþróttum. Það er því ljóst að hér hefur kvennalið UMFN fengið öflugan liðsmann í þann fríða hóp sem fyrir er.
 
Dalla kvaðst vera mjög spennt fyrir komandi vetri og sagði að hún myndi stunda nám hjá Keili í vetur og því hefði Njarðvík verið mjög spennandi og góður kostur fyrir sig.
 
Í spjalli við umfn.is sagðist Sverrir Þór þjálfari, vera mjög ánægður með að málið sé í höfn. ,,Njarðvík hefur haft augastað á Döllu í nokkur ár og þegar hún setti 29 stig (9 fráköst og 5 varin) á okkur í bikarnum í vetur, lögðum við kapp á að fá hana til okkar. Hún er hávaxin og kemur vonandi til að styrkja okkur undir körfunni, sagði Sverrir að lokum.
 
Mynd/ Jón Júlíus Árnason formaður KKD UMFN og Sverrir Þór þjálfari meistaraflokks ásamt Salbjörgu.
 
Fréttir
- Auglýsing -