16:04
{mosimage}
(Sævar Sævarsson fer úr grænu í grænt)
Bakvörðurinn Sævar Sævarsson mun ekki leika með Breiðablik í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð en þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við Karfan.is í dag. Sævar á þessa dagana í viðræðum við Njarðvíkinga og bendir allt til þess að hann klæðist áfram grænu, bara í öðru húsi.
„Njarðvíkingar höfðu samband við mig á dögunum og ég skoðaði þetta frá byrjun með opnum augum,“ sagði Sævar sem er Keflvíkingur að upplagi og því er ekki úr vegi að spyrja: Af hverju Njarðvík en ekki Keflavík?
„Keflavík var í raun aldrei inn í myndinni því þeir ræddu aldrei við mig. Þegar Njarðvíkingar höfðu samband hafði ég þegar tekið þá ákvörðun að leika ekki með Breiðablik á næsta tímabili vegna breyttra aðstæðna. Sem pínulítill pjakkur fylgdist ég með Kidda frænda (Kristinn Einarsson) spila með Njarðvík og fór oft á leiki í Ljónagryfjunni. Svo þegar ég óx úr grasi og fór að æfa körfu með vinum mínum, Jonna, Davíð, Sæma og Magga, í Keflavík lærði maður að hata Njarðvík enda mikill rígur milli liðanna,“ sagði Sævar kátur í bragði og bætti við; „Ég hef hingað til litið á mig sem mikinn Keflvíking en nú er komið að því að læra að elska Njarðvík. Ég veit allavega að amma mín verður helvíti ánægð með þetta og spurning hvort sú gamla mæti ekki bara á leiki í vetur“ sagði Sævar sem hefur átt samtöl við Val Ingimundarson nýráðinn þjálfara UMFN þar sem fram kom að Valur hefði hug á því að bæta Sævari í hópinn.
„Ég hafði þarna möguleika á því að koma mér í stærri og flottari klúbb en ég var í og taka skref upp á við sem leikmaður þar sem ég hef litla úrvalsdeildarreynslu. Grænt fór mér líka vel svo það var um að gera að halda áfram í grænu,“ sagði Sævar sem gerði 13 stig að meðaltali í leik með Breiðablik þau þrjú ár sem hann lék í 1. deild.
Mynd: [email protected]