spot_img
HomeFréttirRúnar: Það er mikill vilji til staðar

Rúnar: Það er mikill vilji til staðar

 

Undanúrslit úrslitakeppni 1. deildar karla hefjast í kvöld með tveimur leikjum þar sem að Fjölnir tekur á móti Hamri og Valur á móti Breiðablik. Mikil eftirvænting fyrir leikinn, en það lið sem að sigrar úrslitakeppnina mun svo fá að fylgja Hetti (sem sigraði 1. deildina) upp í Dominos deildina komandi tímabil. Við heyrðum aðeins í leikmanni Hamars, Rúnari Inga Erlingssyni og spurðum hann út í komandi átök.

 

Hamar er að koma inn sem síðasta liðið í þessa úrslitakeppni eftir að hafa endað í 5. sæti deildarkeppninnar þetta árið. Rúnar segist þó ekki sjá hlutina þannig að lið hans eigi endilega á einhvern bratta að sækja þrátt fyrir það. Nú taki við nýtt mót og að liðið sé búið að ná í nokkra mjög góða sigra og sé á uppleið eftir að hafa breyst nokkuð um síðustu áramót, en að þeir sigrar gefi þeim þó ekkert núna.

 

Varðandi mótherja þeirra í Fjölni hafði Rúnar þetta að segja. "Þeir eru virkilega flott lið, strákar sem eru búnir að vera saman nokkuð lengi og það er einn af þeirra styrkleikum. Margir flottir ungir strákar og svo 2 öflugir kanar. En eins og ég horfi á þetta þá þurfum við að vinna 2 góð lið til þess að komast upp og það skiptir ekki öllu máli hvaða lið það er í undanúrslitum."

 

Enn frekar að til þess að vinna seríuna " Það er fullt af hlutum sem við verðum að gera til þess að vinna þessa seríu. Lykillinn í mínum huga er að vera klárari/meira smart en þeir og nýta okkur smá reynslu sem við höfum á þá. Núna er kominn þessi tími ársins, þegar öllum finnst skemmtilegast að spila körfubolta og þá snýst þetta líka um að vera töffarar og þora vinna ! Ég vil meina að við séum með nóg af þannig strákum, sem spila best þegar allt er undir"

 

Varðandi hvort að Hamar ætti heima í efstu deild sagði Rúnar. "Já klárlega, þessi klúbbur hefur sýnt það aftur og aftur að það er mikill vilji til staðar og liðið hefur verið með karla og kvennalið í efstu deild að gera góða hluti. Núna er smá uppbyggingartímabil finnst mér, það þarf alltaf að setja effort í unglingastarfið og það er ennþá auðveldara þegar þú ert með meistaraflokka til að hvetja allt starfið áfram. Ég man eftir því þegar ég var yngri að það skipti engu máli hvaða lið mætti í Hveragerði, það var alltaf svakalegur leikur og troðfullt hús og brjáluð stemning. Ég vona innnilega að við fáum þetta stuð aftur í Frystikistuna núna í úrslitakeppninni því það er klárlega mikilvægt í svona baráttu."

 

Hamar heimsækir Fjölnir kl. 19:15 í Dalhús í kvöld í fyrsta leik þessara undanúrslita.

 

Hérna er leikir undanúrslita 1. deildar karla

Fréttir
- Auglýsing -