spot_img
HomeFréttirRúm þrettán ár frá síðustu viðureign Hlyns og Sigurðar

Rúm þrettán ár frá síðustu viðureign Hlyns og Sigurðar

Stórleikur 11. umferðar Dominos deildar karla fer fram í kvöld er toppliðin Stjarnan og KR mætast í síðasta leik deildarinnar á árinu 2016. Þar mætast félagarnir Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson í fyrsta skiptið á vellinum í fjöldamörg ár. 

 

Hlynur og Sigurður léku í sex ár saman hjá Snæfell auk þess sem þeir fóru saman til Hollands þeir sem þeir spiluðu með Woonaris í efstu deild. Síðast þegar þeir félagar léku í sama húsi á Íslandi var í Keflavík. Þar lyftu þeir fyrsta og eina íslandsmeistaratitli Snæfels hingað til árið 2010 eftir æsilega rimmu gegn Keflavík. 

 

 

Fyrir tíma þeirra hjá Snæfell mættust þeir nokkrum sinnum en Hlynur lék áður með KR og Skallagrím en Sigurður með ÍR. Síðast þegar þeir léku gegn hvor öðrum var árið 2003 er Snæfell með Hlyn innanborðs tók á móti ÍR sem Sigurður lék með.

 

Eggert Maríuson þjálfari ÍR liðið sem endaði í 7. sæti Intersport deildarinnar. Í liðinu var til að mynda 16 ára gamall Pavel Ermolinski sem var að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki en hann er einmitt einnig liðsfélagi Sigurðar hjá KR í dag. Ómar Sævarsson, Hreggviður Magnússon og Eiríkur Önundarson voru ásamt Sigurði atkvæðamestu íslendingarnir. 

 

Snæfell endaði í 9. sæti deildarinnar þetta árið en Bárður Eyþórsson var á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari liðsins. Hlynur var ásamt Clifton Bush atkvæðamestir í liðinu. Einnig lék Baldur Þorleifsson núverandi aðstoðarþjálfari kvennaliðs Snæfels með liðinu en hann lék einnig með liði Snæfels á síðasta tímabili þá 49 ára. 

 

Tölfræði þessa leiks má sjá hér að neðan:

 

 

Karfan.is heyrði hljóðið í Sigurði Þorvaldssyni að þessu tilefni sem viðurkenndi þó að það væri svo langt síðan leikurinn fór fram að hann myndi ekki margt úr leiknum.

 

„Ég man að við unnum leikinn en alls ekki að hann hefði verið framlengdur. Þetta var greinilega hörkuleikur og ég man að við vorum mjög ánægðir með sigurinn þar sem við höfðum tapað fyrir þeim í fyrri umferðinni í öðrum hörkuleik.“ sagði Sigurður og bætti við:

 

„Það er svo líka magnað að síðast þegar við spiluðum á móti hvor öðrum var Pavel líka liðsfélagi minn.“

 

ÍR hafði sigurinn í leik þar sem Hlynur og Sigurður skiluðu mjög svipaðri tölfræði og léku báðir um 40 mínútur í framlengdum leik. Hvort Sigurður hafi aftur yfirhöndina mun koma í ljós í kvöld er Stjarnan fær KR í heimsókn klukkan 20:00 en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. En hvernig leggst það í Sigurð að hafa Hlyn sem andstæðing í leik morgundagsins.

 

„Mér líst mjög vel á að mæta honum á morgun. Það skemmir ekki fyrir að liðin séu jöfn og í toppbaráttu. Við höfum auðvitað spilað oft á móti hvor öðrum á æfingum frá þessum leik en það verður pottþétt skrýtið að sjá hann þarna hinum megin í öðrum búning á morgun. Ég fer og knúsa hann fyrir leik svo verður bara 40 mín þar sem við reynum báðir að gera okkar til að sigra og svo aftur bræður eftir leik. Ég myndi að sjálfsögðu frekar vilja hafa hann með mér í liði en þetta verður bara öðruvísi gaman.“ 

 

 

Texti / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -