09:37:11
Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls var í gærkvöldi kjörinn nýliði árinsins í NBA-deildinni. Hann hlaut yfirgnæfandi kosningu, en í öðru sæti var OJ Mayo hjá Mamphis Grizzlies.
Fyrir utan þá tvo hafa ótrúlega margir nýliðar gert góða hluti í ár og má þar helst nefna Russel Westbrook hjá Oklahoma Thunder, Eric Gordon hjá Clippers, Brook Lopez hjá NJ Nets og fleiri og fleiri. Er það mál manna að ekki hafi komið þéttari árgangur inn í deildina í áraraðir.
Rose kom verulega á óvart í ár þó enginn efaðist um hæfileikana sem í honum bjuggu, enda var hann valinn með fyrsta valrétti. Hann hefur tekið lið Bulls upp á sína arma og stýrt því eins og leikmaður með áralanga reynslu í deildinni og virðist nú hafa komið félaginu á rétta leið eftir erfið misseri, og er ekki útséð með að þeir eigi eftir að velgja meisturum Celtics undir uggum í yfirstandandi einvígi liðanna í úrslitakeppninni.
Rose, sem er tvítugur að aldri, gerði 16,8 stig að meðaltali í vetur, gaf 6,3 stoðsendingar og tók um fjögur fráköst. Hann er einnig álitin afar frambærilegur varnarmaður, sem er ekki algengt með nýliða.
Þegar valið var tilkynnt sagði Rose að hann væri afar glaður með að hljóta þessi verðlaun.
„Í upphafi leiktíðarinnar var þetta mitt aðaltakmark. Þó að ég hafi sagt að verðlaunin skiptu mig engu, var það ekki satt, því auðvitað viltu vinna, og það voru mjög margir hæfilekaríkir leikmenn sem ég var að keppa við.“
Fjölmargir leikmenn og þjálfarar í deildinni hafa keppst við að hlaða Rose lofi í kjölfar tilkynningarinnar, þar á meðal hefur Kobe Bryant, önnur af tveimur stærstu stjörnum deildarinnar, hrósað honum einmitt fyrir varnarleikinn.
Hann er nú kominn í úrvalsflokk þeirra sem hafa unnið þessi merku verðlaun, m.a. er stytta af einum fyrrum verðlaunahafa fyrir utan heimavöll Rose í Chicago, Michael Jordan, og Rose leiðist ekki samanburðurinn. „Það er gaman að vera kominn í sama hóp og þessir menn.“
ÞJ