spot_img
HomeFréttirRodman og Barkley úti, óvíst með Hardaway

Rodman og Barkley úti, óvíst með Hardaway

17:28 

{mosimage}

 

 

Eftirfarandi frétt um stóra NBA-stjörnumálið hjá KR B(umban) má finna á heimasíðu KR, www.kr.is/karfa þar sem Dennis Rodman og Charles Barkley eru útilokaðir frá karftframherjastöðunni en verið er að vinna í þessum málum á ógnarhraða. KR B(umban) keppist nú við það að fá til sín þekkt nafn fyrir átökin í Lýsingarbikarnum snemma á næsta ári.

  

Vart er um annað rætt í íslensku þjóðfélagi í dag en hvaða NBA stjarna muni leika með Bumbunni í 8-liða úrslitum bikarkeppni KKÍ og Lýsingar.  Heyrst hefur af sumum heimilum í vesturbænum þar sem vangaveltur þess efnis hafa orðið til þess að undirbúningur jólanna hafi hreinlega gleymst.  Fréttablaðið hefur ítrekað tekið málið upp, slegið því upp á forsíðu, baksíðu, viðskiptakálfi, einkamáladálki og í slúðurfréttum fræga fólksins.

Það hefur verið fullyrt að leitað hafi verið til Dennis Rodman og að verðmiðinn á kappanum sé um 4. milljónir króna, sem er einmitt ársgjald hvers meðlims í KR-b. Í gær birtist svo viðtal í íþróttafréttum Stöðvar 2, við forman kkd. KR og aðal vítaskyttu Bumbunnar, Böðvar Guðjónsson, þar sem hann staðfesti áhuga Bumbunnar á að ná í NBA leikmann og viðræður væru í gangi við leikmann sem væri í sama flokki og Michel Jordan. Ekki kom fram í viðtalinu hvort átt væri við gæðaflokk, þyngdarflokk, stjórnmálaflokk osfrv. 

Samkvæmt heimildum heimasíðu kkd. KR stóð KR-b til að boða að fá Dennis í bikarleikinn en á endanum var tvennt sem varð til að tilboðinu var hafnað. Í fyrsta lagi þá er KR-b með einn öflugasta kraftframherja landsins í Guðmundi Þór Magnússyni og í annan stað þá þykir Dennis hreinlega ekki henta hröðum leikstíl Bumbunnar. Þannig að eins og staðan er í dag er talið ólíklegt að Dennis komi, ekki nema að Guðmundur Þór verði fyrir einhverjum hnjaski og geti ekki tekið þátt í leiknum.  

Aðrir hafa verið nefndir til sögunnar, þ.á.m. Tim Hardaway og Charles Barkley. Heimildarmaður heimasíðunnar gat staðfest að einhverjar þreifingar hefðu átt sér stað við umboðsmann þess Hardaway en ekki við Barkley, enda spilaði hann einnig sömu stöðu og besti kraftframherji 2. deildar, fyrrnefndur Guðmundur Þór. Sögusagnir hafa verið á kreiki að aðrir leikmenn séu inn í myndinn en heimildarmaðurinn vildi hvorki neita né staðfesta að viðræður væru hafnar við John Stockton, Latrell Spreewell,Scottie Pippen og Reggie Miller.  

Málið virðist vera á mjög viðkvæmu stigi því formaður kkd. KR og Einvaldur Bumbunnar, Lárus Árnason, neituðu að tjá sig við heimasíðuna.  

Frétt af www.kr.is/karfa

Fréttir
- Auglýsing -