spot_img
HomeFréttirRannveig í Jordan State: Ansi ólíkt því sem ég þekki heima á...

Rannveig í Jordan State: Ansi ólíkt því sem ég þekki heima á Íslandi

 
Haukakonan Rannveig Ólafsdóttir verður í Bandaríkjunum í vetur og ekki langt frá vinkonu sinni Heiðrúnu Kristmundsdóttur en báðar eru þær í Norður Karólínu við nám og körfuboltaiðkun. Þær fóru út á sömu forsendum, þ.e. í gegnum Sigurð Hjörleifsson, Heiðrún í Winston-Salem en Rannveig er í Wilmington. Leiktíðin er hafin hjá Rannveigu og félögum í Hurricanes en Rannveig meiddist í fyrsta æfingaleiknum.
,,Ég vissi aldrei hvern ég gæti talað við til þess að vera örugg um að fá að spila körfubolta í skólanum sem ég mundi lenda í. Ég hafði heyrt að Siggi Hjörleifs væri í sambandi við skiptinemasamtök og gæti hjálpað mér að komast inní skóla svo ég gæti spilað körfu. Ég hafði samband við hann í september 2009 og þá fór þetta allt af stað,” sagði Rannveig sem bætti við sjö manna fjölskyldu!
 
,,Ég fékk að vita um fjölskylduna mína aðeins þrem vikum áður en ég átti að vera komin út og ég sá ekki myndir af þeim fyrr en um viku áður en ég fór. Fjölskyldan sem ég bý hjá er sjö manna fjölskylda. Mamma og pabbi, tvær stelpur, 14 og 12 ára, og svo þrír strákar, 13, eins og tveggja ára. Svo eiga þau líka lítinn hund. Þetta er sumsé mjög stór fjölskylda og alltaf eitthvað að gerast á heimilinu. Húsið sem fjölskyldan býr í er heldur ekkert slæmt. Það er á tveimur hæðum, ég hef bæði sér herbergi, fataherbergi og sér baðherbergi og í garðinum karfa og sundlaug. Hverfið sem ég bý í er afgirt og þar eru tennisvellir, golfvöllur og klúbbhús. Þetta er því ansi ólíkt því sem ég þekki heima á Íslandi, en maður er nú ekki að hata svona líf,” sagði Rannveig sem mun skila stöðu leikstjórnanda eða skotbakvarðar í vetur.
 
,,Krakkarnir í skólanum eru öll mjög skemmtileg og opin. Ég er orðin mjög góð vinkona stelpnanna í liðinu, en sá hópur er mjög náinn og allar góðar vinkonur. Mér líst mjög vel á liðið hérna, sem er kallað the Hurricanes. Við erum með góðar skyttur og góða stóra menn undir körfunni. Ég mun spila sem ás og tvistur. Við erum tvær í liðinu sem munum skiptast á að drippla upp völlinn. Þjálfarinn er búinn að segja að þetta ár mun vera "the year"! Við erum með 5 stelpur á síðasta árinu sínu og því búist við miklu af okkur og við ætlum okkur líka stóra hluti,” sagði Rannveig og þó hún sé komin til Bandaríkjanna er skólinn engu að síður fámennur.
 
,,Skólinn sem ég er í heitir Cape Fear Academy og er einkaskóli. Það eru bara 200 nemendur í honum svo að allir vita hverjir allir eru, sem mér finnst nú bara gott því þá kynnist maður fólkinu betur. Ég hefði getað útskrifast beint úr Cape Fear ef ég vildi og farið beint í háskóla hérna úti, en ég tók þá ákvörðun að koma heim til Íslands til að klára stúdentinn í Flensborg. Svo kemur bara í ljós hvað gerist eftir stúdentinn. Maður væri nú ekkert á móti því að komast inní háskóla hérna úti og spila körfu,” sagði Rannveig sem lék ekki með neinu AAU liði á undirbúningstímabilinu líkt og Heiðrún gerði.
 
,,Ég var ekki í neinu AAU liði einsog Heiðrún, þannig það hafa ekki neinir skólar haft samband við mig eða séð mig spila. Þjálfarinn sagði við mig að það mundi örugglega einhverjir skólar hafa samband við mig þegar það líður á tímabilið, þannig ég bíð bara spennt,” sagði Rannveig sem þessa dagana er að glíma við meiðsli.
 
,,Um síðustu helgi vorum við að keppa fyrstu leikina okkar, þetta voru bara æfingaleikir, en í fyrsta leiknum meiddist ég á hægra hnéi, sama hné og er búið að vera vesen á í 2 ár. Ég mun fara í MRI (myndatöku) í kvöld og fæ niðurstöður útúr henni líklegast á föstudaginn,” sagði Rannveig sem stefnir vitaskuld að því að vera komin sem fyrst inn á parketið aftur.
 
Ljósmynd/ Rannveig verður nr. 12 í vetur hjá Hurricanes
 
Fréttir
- Auglýsing -