„Jú þau voru nú einhver en mismikill áhugi hjá mér,“ svaraði Ragnar Á. Nathanaelsson aðspurður hvort einhver fjöldi liða hefði verið á höttunum eftir starfskröftum hans á næstu leiktíð en Ragnar var að skipta úr Hamri í 1. deild karla yfir í grannaliðið Þór í Þorlákshöfn sem leikur eins og kunnugt er í Domino´s deild karla.
En af hverju Þór?
„Aðallega af því að ég fell vel í hópinn, þetta er góður hópur með flottan þjálfara. Ég er að klára stúdentinn ásamt því að ljúka við húsasmíðabraut og því ekki langt að sækja skóla þar sem maður er að skipta úr uppeldisfélaginu. Þannig varð Þór fyrir valinu,“ sagði Ragnar sem síðustu tvö tímabil hefur leikið í 1. deild karla með Hamri.
„Auðvitað er úrvalsdeildin sterkari þó 1. deildin hafi nú verið sterkari á síðasta tímabili en oft áður. Úrvalsdeildin er vissulega á hærra „leveli“ og sterkari menn þar undir körfunni svo ég býst við meiri baráttu í teignum heldur en í 1. deildinni.“
Varðst þú eitthvað var við að fólki kæmi það spánskt fyrir sjónir að að miðherji upp á 218 sm væri að leika í 1. deild en ekki úrvalsdeild?
„Maður er já búinn að heyra þetta, heyrt að það hafi verið vitleysa í mér að fara í 1. deildina og það í tvö ár. Auðvitað er þetta uppeldisfélagið manns og maður vildi koma liðinu upp, við reyndum það tvisvar sinnum en það tókst ekki svo ég varð nú að segja skilið við 1. deildina og komast aftur í toppdeildina. Það var því einfaldlega viljinn til þess að koma Hamri aftur á meðal þeirra bestu sem var ástæðan fyrir þessu.“
Ragnar heldur í fyrramálið út til Lúxemborg á Smáþjóðaleikana með A-landsliði Íslands og þar er ekki úr vegi að leika vel og heilla útsendara stærri liða, er svoleiðis klásúla fyrir hendi í nýja samningnum við Þór? Að þú megir semja við erlend lið áður en leiktíðin hefst í október á Íslandi?
„Já, og maður heyrir af þessum og hinum liðum en maður svo sem hugsar ekkert mikið út í það nema einhver hjól fari að snúast almennilega. Vissulega er áhugi hjá manni á því að komast út í stærra prógramm og í stærri deild en maður veit aldrei hvernig þetta verður og tala nú ekki um ef maður kæmist í fleiri verkefni með landsliðinu heldur en Smáþjóðaleikana.“
Mynd/ Sævar Logi Ólafsson