Pétur Ingvarsson verður áfram við stjórnartaumana hjá Haukum á komandi tímabili en hann stýrði liðinu upp í Iceland Express deild karla eftir sigur á Valsmönnum í umspili 1. deildar. Nú hefjum við yfirreið okkar á púlsinum í IEX deild karla fyrir næstu leiktíð og byrjum þetta í Hafnarfirði með Pétri.
,,Við í Haukum verðum með svipað lið og við enduðum með í 1. deildinni síðastliðið tímabil, við höfum þó misst Helga Björn Einarsson til Grindavíkur en hann var okkar helsta vopn undir körfunni, skarð hans fyllir Gerald Robinson,“ sagði Pétur og áréttar að Haukaliðið hafi litla reynslu í efstu deild.
,,Margir eru að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi en markmið mitt er að koma Haukum aftur þar sem þeir eiga heima í mínum huga en það er efri hlutinn, meðal þeirra bestu. Ég tel okkur eiga möguleika á að verða í þeim hópi strax á þessu tímabili,“ sagði Pétur en honum fannst þungt að rýna inn í leiktíðina.
,,Eins og staðan er núna þá er ómögulegt að spá eitthvað um það hvaða lið eru líkleg til afreka, mér finnst þetta vera jafnara en oft áður og á von á spennadi tímabili,“ sagði Pétur sem verður með tvo erlenda leikmenn eins og áður hefur komið fram. Áðurnefndan Gerald Robinson og svo Semaj Inge og mega þá sóknarbakkarar deildarinnar heldur betur passa upp á boltann!
Af ungum leikmönnum er það að segja að í fyrra urðu Haukar Íslandsmeistarar í unglingaflokki karla og þar fóru mikinn þeir Örn Sigurðarson og Emil Barja og fá þessir kappar eldskírn sína í úrvalsdeild á þessu tímabili ef allt gengur eftir.
Ljósmynd/ Semaj Inge snýr aftur í Hafnarfjörðinn.