Ágústmánuður er vel á veg kominn og ekki nema rétt rúmur mánuður í að Iceland Express deildirnar rúlli af stað. Af þessum sökum er ekki úr vegi að taka púlsinn á liðunum og við lítum við í IEX deild kvenna og hefjum leik hjá Fjölni í Grafarvogi sem sjá á eftir einum af sínum efnilegustu leikmönnum í annað höfuðborgarlið.
,,Við höfum ekki fengið neina íslenska leikmenn en vorum að missa Bergdísi Ragnarsdóttur yfir í KR,“ sagði Eggert Maríuson þjálfari Fjölnis í samtali við Karfan.is. Bergdís er 18 ára gömul og var á meðal sterkustu leikmanna Fjölnis í 1. deildinni á síðustu leiktíð. Þess má svo til gamans geta að Pálmar og Árni Ragnarssynir eru bræður Bergdísar en Árni leikur með Huntsville Chargers í Bandaríkjunum þar sem hann stundar nám við University of Huntsville Alabama.
Þó er ekki öll nótt úti og von á erlendum bakverði í Grafarvoginn. ,,Hún heitir Maggie McCloskey og svo ætlum við að skoða aðra möguleika en það er ekkert sem komið er á hreint. Annars verður aðalmálið að halda okkur uppi og búa til smá stöðugleika, ef það gengur þá er ég sáttur, en það verður örugglega hörkubarátta,“ sagði Eggert en hvað sér hann í spádómskúlunni góðu um þessar mundir?
,,Þetta verða sömu liðin við toppinn eins og verið hefur undanfarin ár, KR, Haukar og Keflavík í sérflokki svo verða hin liðin í baráttu sín á milli.“
Ljósmynd/ Fjölnir vann sér þátttökurétt í Iceland Express deild kvenna eftir sigur á Þór Akureyri í úrslitum.