22:12
{mosimage}
(Petrúnella gerði sigurkörfuna þegar 6 sekúndur voru til leiksloka)
Grindvíkingar stöðvuðu í kvöld sigurgöngu Vals í Iceland Express deild kvenna eftir sigur í miklum spennuleik. Lokatölurnar í Röstinni voru með minnsta móti eða 46-44 Grindavík í vil og var aðeins skorað minna í einum leik á síðustu leiktíð þegar Hamar lagði Val í Vodafonehöllinni 42-45. Petrúnella Skúladóttir gerði sigurstig leiksins þegar 6 sekúndur voru til leiksloka. Valskonur fengu tækifæri til að jafna eða stela sigrinum en þeim tókst ekki að nýta það tækifæri og máttu því þola sitt fyrsta tap í vetur.
Valskonur byrjuðu vel og komust í 0-7 og áttu Grindvíkingar erfitt með að finna glufu á sterkri vörn Vals þar sem Signý átti teiginn og varði hvert skotið á eftir öðru. Um miðjan fyrsta leikhluta skullu Jovana Lilja í Grindavík og Signý í Val illa saman og þurftu þær báðar að fara af velli. Signý kom aftur inn á leikvöllinn en Jovana lék ekki meira og er hugsanlega nefbrotin. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 11-13 fyrir Val en Grindvíkingar voru sprækari í öðrum leikhluta og leiddu 27-23.
Lítið fór fyrir sóknarleiknum í kvöld en jafnt var á með liðunum allt til leiksloka. Valskonur náðu að jafna metin á lokasprettinum í 44-44 en Petrúnella færði Grindvíkingum tvö stig í hús með sigurkörfunni úr teigskoti. Valskonur fengu færi á því að svara en þeim tókst það ekki og Grindavík fagnaði sigri.
Kristjana Magnúsdóttir var stigahæst hjá Val í kvöld með 15 stig og 6 fráköst en Signý Hermannsdóttir gerði 6 stig, varði 10 skot og tók 15 fráköst. Hjá Grindavík voru þær Ólöf Helga Pálsdóttir og Ingibjörg Jakobsdóttir báðar með 12 stig. Petrúnella Skúladóttir gerði 8 stig fyrir heimakonur og tók 11 fráköst.
Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0zNTc=
Texti: Alma Rut Garðarsdóttir
Myndir: Þorsteinn G. Kristjánsson – www.saltytour.com
{mosimage}