,,Við fengum þá mótspyrnu sem við gáfum upp í kvöld, við stjórnuðum leiknum, bæði í vörn og sókn og ég tel að Njarðvík hafi ekki fengið neitt meira í þessum leik heldur en við gáfum þeim,” sagði Pavel Ermonlinskij eftir stórsigur KR-inga á Njarðvík í Iceland Express deild karla í kvöld. Pavel fór að vanda mikinn í liði KR og stjórnaði Vesturbæingum eins og herforingi.
,,Ég tel okkur vera með sterkasta liðið í deildinni og við eigum ekki að vera að hugsa um hvað önnur lið eru að gera. Við erum með þannig lið að andstæðingar okkar þurfa að einbeita sér að því hvað við erum að gera. Eftir Keflavíkurleikinn þá tókum við hlutina aðeins í gegn og það sýnir sig bara að um leið og við byrjum að spila vörn þá getum við spilað okkar sókn sem er að hlaupa,” sagði Pavel. Aðspurður um átökin í þessum leik og hvort þetta væri glímurnar sem koma skyldu í jafnri og spennandi deild sagði Pavel:
,,Pottþétt, það verða fleiri svona líkamlegir leikir og það sem einkennir íslenskan körfubolta er barningur. Það eru menn í öllum liðum sem ná að peppa sína menn áfram og byrja að berja, það er verið að berjast og stundum gleymist taktík og ég held að þetta sé línan héðan í frá. Það verða allir leikir svona held ég, fyrir utan náttúrulega okkar bolta sem verður alltaf fagur og léttleikandi,” klykkti Pavel út með á léttu nótunum í lokin.