spot_img
HomeFréttirPavel eftir tap Tindastóls gegn Stjörnunni "Það þarf svo lítið að fara...

Pavel eftir tap Tindastóls gegn Stjörnunni “Það þarf svo lítið að fara úrskeiðis til að menn fari inn í einhverja skel.”

Nýr þjálfari Tindastóls, Pavel Ermolinskij, var ekki sáttur með tap síns liðs í Garðabænum gegn Stjörnunni í kvöld. Lið hans leiddi með 15 stigum í hálfleik en tapaði að lokum með 11 stigum eftir afleitan seinni hálfleik.

“Þetta er eitthvað sem að gerist fulloft hjá þessu liði, þetta er vandamálið,” sagði Pavel og þegar hann var beðinn um að útskýra þá benti hann á hausinn sinn. “Hausinn, þetta er allt hérna. Það þarf svo lítið að fara úrskeiðis til að menn fari inn í einhverja skel.”

Tindastólsmenn áttu flottan fyrri hálfleik, skoruðu 48 stig og héldu Stjörnunni í 33 stigum. Í seinni hálfleik þá skyndilega gékk ekkert upp og Stólarnir nýttu aðeins 6 skot utan af velli í 31 tilraunum (19% skotnýting). Þeir skoruðu aðeins 20 stig í öllum seinni hálfleiknum. “Þetta þarf að laga, þetta er vandamál númer eitt,” sagði Pavel og var þá aftur að tala um hausinn og hugarfarið.

Pavel hefur marga fjöruna sopið sem leikmaður og er af mörgum talinn besti leikmaður úrvalsdeildar karla fyrr og síðar. Er hann þá ekki tilvalinn til að setjast niður og ræða við liðið um hugarfar? “Jú, þetta er náttúrulega bara vinna eins og hvað sem er. Við munum leggja áherslu á þetta umfram aðra hluti,” sagði þjálfarinn og taldi að þetta væri aðalatriðið sem útskýrði þennan ósigur. “Þetta snýst ekki um einhverja taktík eða eitthvað svoleiðis, þetta er einhver andlegur styrkur, ég veit ekki hvað þetta er, við þurfum að kafa aðeins í þetta.”

Núverandi liðið hans Pavels tapaði fyrir honum í fyrra í úrslitunum þegar hann spilaði með Val og hann ætti því að þekkja veikleika og styrkleiks Tindastóls. “Ég vissi svo sem þegar ég kom að þetta væri eitthvað til að vinna í þegar ég kom, verkefni númer eitt, að minnka þessar hæðir og lægðir sem fylgir oft þessu liði,” sagði hann.

Þó að stemmingin sé aldrei góð eftir tapleik þá er um að gera að spyrja Pavel hvernig honum og fjölskyldu hans líði fyrir norðan á Sauðárkróki. Það léttir eilítið yfir honum við spurninguna; “Mjög vel, tekið vel á móti okkur. Samfélagið snýst náttúrulega að mörgu leyti bara um körfubolta þannig að maður finnur fyrir því að þetta skiptir þau máli og maður tekur þessu mjög alvarlega þess vegna. Þetta er ekkert grín, þess vegna eru svona töp erfið,” segir hann og hættir um leið að brosa þegar hann minnist á tapið.

Rétt fyrir lok félagaskiptagluggans ráku margir augun í það að Pavel hefði fengið félagaskipti yfir í Tindastól, þrátt fyrir að hann hefði gefið það út að hann væri hættur. Það getur varla verið að hann dragi fram skóna á nýjan leik? “Nei, það stendur ekki til, það er ekki endilega planið. Ég tek allar ákvarðanir mínar þarna fyrir norðan út frá því að ég er þarna til að vinna titil og þessi ákvörðun var tekin með það líka í huga.”

Þetta er ekki mjög afgerandi neitun, hyggst hann þá kannski fara í búning ef liðið þarf á honum að halda til að vinna Íslandsmeistaratitil? “Ég efast um að ég fari aftur í búning, en þesssar ákvarðanir eru teknar út frá einu markmiði og ef það þarf að taka þær þá verða þær teknar,” segir Pavel að lokum. Hver veit nema hann sjáist í vínrauðri treyju í úrslitakeppninni?

Viðtalið í heild sinni má sjá hér.

Viðtal: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -