Evrópumeistaramótið í körfuknattleik hefst eftir stutta 24 daga og á næstunni eru nokkrir vináttulandsleikir framundan. Spánn og Frakkland mætast í vináttuleik þann 9. ágúst næstkomandi og eins og gefur að skilja er búist við miklu af Gasol bræðrunum sem þykja ekki ósennilegir til þess að leiða Spán í átt að gullinu í Litháen.
Gasol bræður þeir Pau og Marc hafa áður leikið landsleiki saman en sá eldri og reyndari, Pau, telur að enn eigi Spánn töluvert eftir að leggja til málanna á parketinu þegar þeir bræður eru annarsvegar í teignum.
,,Við sem par erum vopn sem á enn eftir að kanna til fullnustu, við erum stórir og góðir leikmenn og færir um að valda miklum skaða. Vissulega má finna veikleikabletti á okkur gegn ýmsum andstæðingum en ég tel að okkar kostir sem leikmenn striki út alla veikleikana,“ sagði Pau sem mun væntanlega rúlla mikið í kringum bróðir sinn í stöðu kraftframherja á meðan Marc verður hinn eiginlegi miðherji Spánverja.
Evrópukeppnin verður nú í fyrsta sinn með stækkuðu fyrirkomulagi, þ.e. að 24 lið taka þátt og Pau gerir sér fulla grein fyrir auknu álaginu:
,,Þetta verður lengra en vanalega en þetta mun velta mikið á því hvernig við hefjum keppnina. Við verðum að mæta klárir því öll lið bíða spennt eftir því að mæta okkur og sýna hvað í þeim býr,“ sagði Pau og kvaðst spenntur fyrir vináttuleiknum gegn Frökkum því sjálfur telur Lakersmaðurinn að Frakkar þyki sigurstranglegir á mótinu.