21:57
{mosimage}
,,Nei, þetta var alls ekki auðvelt,“ svaraði Páll Axel Vilbergsson leikmaður Grindavíkur í samtali við Karfan.is eftir 71-85 sigur á ÍR í Seljaskóla í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Grindvíkingar eru komnir í undanúrslit en ÍR-ingar eru komnir í sumarfrí. Páll Axel var heitur í leiknum og setti niður 21 stig en hann skoraði úr 6 af 9 þriggja stiga tilraunum sínum.
,,Það kom okkur ekki á óvart að ÍR skyldi minnka muninn þegar Ómar var rekinn út af og lið minnka muninn gegn öðrum liðum sem slaka á og það var einmitt það sem við gerðum. Það var eins og við hefðum bara búist við því að þeir myndu leggjast niður og gefast upp. Kannski gerist það ómeðvitað hjá okkur,“ sagði Páll Axel sem var ekki nægilega sáttur við hvað leikur Grindavíkur var kaflaskiptur.
,,Þetta var svona í síðasta leik, kaflaskipt og sigurinn í tölum segir ekkert allt saman eins og í fyrsta leik. Við náðum góðum kafla í báðum leikjunum en ÍR koma til baka og fá meðbyr en svo fáum við aftur góðan kafla og það dugði til. Í kvöld er fátt annað hægt að segja um lokamínúturnar hjá okkur en að þær hafi verið ljótar! Við spiluðum ágætla úr stöðunni en það var ekki fallega gert, héngum á tuðrunni og sóttum ekki á körfuna,“ sagði Páll Axel sem fær nú góða hvíld með Grindavíkurliðinu og hvernig verður hún notuð?
,,Það má Guð vita hverju Friðrik þjálfari tekur upp á. Í fyrra fyrir úrslitakeppni var um 10 daga hvíld og þá tók hann okkur bara í Boot Camp. Við höfðum bara gott af því en eina sem ég veit er að það er frí á morgun en hvað Friðrik gerir við okkur eftir það kemur bara í ljós,“ sagði Páll kátur í leikslok.