21:00
{mosimage}
(Pálína Gunnlaugsdóttir)
Landsliðskonan og leikmaður Keflavíkur, Pálína Gunnlaugsdóttir, er með barni og verður því frá körfuboltaiðkun fram að jólum hið minnsta. Blóðtakan er mikil fyrir íslenska kvennalandsliðið sem og Keflvíkinga en Pálína gerði 16,4 stig að meðaltali í leik fyrir Keflavík í 14 deildarleikjum á síðustu leiktíð. Þá er ótalið varnarframlag Pálínu sem er einn allra sterkasti varnarmaður landsins og á meðal bestu leikmanna landsins. Pálína sagði í samtali við Karfan.is að hún ætti að eiga þann 8. nóvember næstkomandi en hana langi til þess að komast aftur inn í næsta tímabil.
,,Ef allt gengur vel á ég von á því að komast inn í næstu úrslitakeppni en stefnan er að vera komin í gang um jólin,“ sagði Pálína glöð í bragði en barnsfaðirinn er Kjartan Atli Kjartansson leikmaður Subwaybikarmeistara Stjörnunnar. Óhætt er því að spá fyrir að boltabarn sé í vændum.
,,Ég á heima í Kópavogi en á ekki von á því að skipta um lið,“ svaraði Pálína aðspurð um hvort endurkoman yrði með Keflavík eða öðru liði. Þar með bætist Pálína í fríðan hóp Keflavíkur sem hefur fjölgað mannkyninu en þær Birna Valgarðsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir voru fljótar í gang eftir barnsburð og áttu báðar ljómandi gott tímabil með Keflavík.