Það var ekki meistarabragur á Garðbæingum í Iðu á Selfossi í kvöld. Ekki var það heldur kappið sem bar fegurðina ofurliði hjá hjá toppliðinu. Þeir unnu samt þokkalega öruggan 12 stiga sigur og geta verið ánægðir með það.
Greinilegt var í upphafi leiks að það var einungis búkurinn sem var í bláu búningunum. Hugurinn var enn á leiðinni austur yfir Hellisheiði og heimaliðið náði góðri forystu, skoraði nánast fyrirhafnarlaust að vild og sýndi skemmtilega takta í sóknarleiknum. En undir lok fyrsta leikhluta kom andinn smám saman yfir tvo af gestunum, sem minnkuðu muninn í 23-19. Nokkuð jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta, sem Stjarnan vann þó 20-27 og hafði þriggja stiga forskot í hálfleik, 43-46, mest Jovan Zdravevski að þakka, sem hitti úr öllu og var kominn með 27 kvikindi.
Strax í upphafi seinni hálfleiks sýndu gestirnir svo getumuninn á liðunum. Þeir keyrðu yfir ráðvillta heimamenn og náðu upp því 20 stiga forskoti sem dugði til sigurs. Stjarnan vann þriðja hluta með 12 stiga mun og staðan 60-75. Heimamenn gáfust samt ekki upp og unnu síðasta leikhlutann 23-20. Þeir náðu að minnka muninn niður í 8 stig, 80-88, þegar lítið var eftir en Justin Shouse kláraði dæmið á vítalínunni, öryggið uppmálað eins og vanalega.
Besti leikmaður FSu, bakvörðurinn knái R. Williams, lék handarbrotinn á vinstri og var fyrir vikið bara hálfur maður. Hann barðist þó af dugnaði en skotin voru ekki að gera sig, sem von var, setti 11 stig. Orri Jónsson, 17 ára strákur ofan úr Lundareykjardal, átti skínandi spretti og skoraði 13 stig, en á sem von er margt ólært í varnarleiknum, baráttuglaður en stundum full ákafur og gerir þá mistök. Alex Zimniacks, með 29 stig og 11 fráköst, og Chris Caird með 20 stig og 10 fráköst, voru bestir heimamanna í leiknum.
Stjarnan er án vafa eitt besta liðið og í deildinni, og getur spilað glimrandi skemmtilegan körfubolta. Það var þó ekki að sjá í kvöld. Góðir leikmenn eins og Kjartan Kjartansson, Birkir Guðlaugsson, Magnús Helgason og Fannar Helgason voru ekki skugginn af sjálfum sér. Það var „öxulveldið“, Jovan og Justin, sem héldu Stjörnunni uppi á hvelfingunni. Þetta eru frábærir leikmenn, sannir atvinnumenn sem halda sínu striki og gera það sem gera þarf. Ekki var annað að sjá en Teitur vissi það allan tímann, alveg pollrólegur, þó hann hafi varla verið ánægður með spilamennsku liðsins.
Teitur sýndi líka sannan íþróttaanda og höfðingsskap og tók sína bestu menn útaf þegar Williams, leikstjórnandi FSu, þurfti að yfirgefa völlinn í lok 3. leikhluta með 5 villur, og lét þá sitja fram í miðjan síðasta leikhluta. Ólafur Aron Ingvason stjórnaði þá leik Stjörnunnar, gerði það ágætlega og skoraði 9 stig á stuttum tíma. Allir guttarnir hans Teits fengu að koma inn á og var það til sóma.
Sem fyrr segir drógu Jovan og Justin vagninn fyrir Stjörnuna, Jovan með 33 stig og Justin 24, á hæglátan hátt. Aðrir náðu ekki tveggja stafa tölu, en 10 leikmenn komust hinsvegar á blað.
Með sigri Tindastóls og Fjölnis í kvöld, og Breiðabliks í gær, dofnar aftur sú veika tíra sem kviknaði hjá FSu með sigrinum í Kópavogi, og hefur blakt, meira þó af vilja en mætti, undanfarna viku.
Dómararnir stóðu sig með prýði, þó stundum fyndist manni þeir reyndar óþarflega glaðir á flautunni og dæma á tiltölulega litlar snertingar. En þeir drógu sína línu og voru samkvæmir sjálfum sér í öllum meginatriðum.
Texti: Gylfi Þorkelsson