Bakvörðurinn Matthías Orri Sigurðarson er ekki viss hvort að hann verði með KR á komandi tímabili í úrvalsdeild karla. Staðfesti leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.
Matthías Orri er aðeins 26 ára, að upplagi KR-ingur og hefur leikið fyrir þá fyrir utan þegar hann var með ÍR frá 2013-15 / 2017-19 og þegar hann var í bandaríska háskólaboltanum.
Samkvæmt Matthíasi mun hann leika með KR fari svo að hann spili, en bróðir hans Jakob Örn tók nýverið við aðstoðarþjálfarahlutverki hjá liðinu eftir að hafa lagt skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. Segir Matthías “Hef verið í hugleiðingum núna í smá tíma að taka mér eitthverskonar pásu frá körfubolta amk næsta vetur – er ennþá að pæla í þessum hlutum en ef ég spila verð ég alltaf í Vesturbænum, fer ekki þaðan aftur”
Ljóst er að um mikla blóðtöku væri að ræða fyrir KR fari svo að Matthías verði ekki með. Á síðasta tímabili skilaði hann 14 stigum, 4 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í 30 leikjum fyrir KR sem enduðu í 5. sæti deildarkeppninnar.