10:32:13
Dwayne Wade átti enn einn stórleikinn fyrir Miami Heat í gærkvöldi þegar hann skoraði 50 stig í sigri á Utah Jazz í þríframlengdum leik. Með þessari frammistöðu komst hann einnig upp fyrir Alonzo Mourning á toppinn yfir flest stig skoruð í sögu Miami Heat. Að auki var hann með 10 fráköst, níu stoðsendingar fjórar stelur og tvö varin skot í leiknum, en þetta er í fyrsta sinn í sögu NBA sem nokkur nær þeim árangri.
Lokatölur voru 140-129, en Miami þurfti tvisvar að vinna sig upp eftir að hafa lent langt undir. Fyrst unnu þeir upp sjö stiga forskot Jazz á síðustu 55 sek venjulegs leiktíma til að knýja fram fyrstu framlenginguna. Í upphafi hennar skoruðu Jazz fyrstu átta stigin sem Miami þurfti að vinna upp en önnur framlengingin var æsispennandi og jafnt á flestum tölum. Sú síðasta var svo eign Miami þar sem þeir skoruðu 14 stig á móti 5.
Wade fékk ágætis aðstoð frá Jermaine O‘Neal sem gerði 28 stig, og Mario Chalmers sem var með 23.
Hjá Jazz var Deron Williams með 30 stig og 13 stoðsendingar, Kyle Korver var með 25 og Carlos Boozer var með 20 stig og 13 fráköst.
Ekki var mikið um óvænt úrslit í nótt hins vegar þar sem San Antonio vann Houston í miklum Texas-slag, Denver Nuggets unnu LA Clippers og Phoenix bundu enda á sex leikja taphrinu með sigri á Oklahoma Thunder.
Þá unnu Chicago Bull góðan sigur á New Orleans Hornets og Minnesota vann Charlotte Bobcats.
Hér eru úrslit næturinnar:
Utah 129
Miami 140
Charlotte 100
Minnesota 108
San Antonio 88
Houston 85
New Orleans 79
Chicago 97
LA Clippers 94
Denver 107
Oklahoma City 95
Phoenix 106
ÞJ