spot_img
HomeFréttirÓsanngjarnt að byggja upp falskar vonir á þessum tímapunkti

Ósanngjarnt að byggja upp falskar vonir á þessum tímapunkti

 
Derek Fisher, formaður leikmannasamtaka NBA deildarinnar, segir það ósanngjarnt gagnvart leikmönnum og áhorfendum að byggja upp falskar vonir á þessum tímapunkti. Verkfallið í NBA deildinni er enn óleyst en í dag snúa samningsaðilar aftur að borðum.
Miklar vonir eru bundnar við fundinn í dag og næstu daga enda vonast flestir til þess að NBA liðin geti farið að huga að sínum undirbúningstímabilum, að senda sína menn í ,,training camps“ eins og tíðkast hjá NBA liðunum.
 
Fisher sagði einnig að menn þyrftu að vera snarir í snúningum við samningaborðin ef æfingabúðir leikmanna ættu að geta hafist með góðu móti í kringum 3. október næstkomandi. Á fimmtudag er tíðinda að vænta þegar eigendur NBA liða hittast í Dallas og leikmenn í Las Vegas að loknum fundarhöldunum í New York sem hefjast í dag.
 
Fæstir vita hvar viðræður leikmanna og eigenda NBA liða standa því allir sem að samningaviðræðunum koma eru þöglir sem gröfin. ,,Ég vildi óska þess að við værum komnir á þann stað að geta sagt til um hvenær NBA leikmenn héldu aftur inn á völlinn. Við erum ekki í þeirri stöðu í dag og því væri ósanngjarnt gagnvart bæði leikmönnum og áhorfendum að byggja upp einhverjar falskar vonir,“ sagði Fisher.
 
Á fimmtudag má því mögulega búast við að meira kjöt verði komið á beinin en þar sem hvorug hlið deilenda neitar að gefa upp hver staðan sé á samningaviðræðunum óttast flestir hið versta.
 
Mynd/ Derek Fisher formaður leikmannasamtaka NBA deildarinnar
 
Fréttir
- Auglýsing -