,,Við vorum mun betri í fyrri hálfleik og ég lagði gríðarlega áherslu á það að Keflvíkingar myndu mæta eins og grenjandi ljón inn í þriðja leikhluta. Þetta þekkja þeir og ýttu okkur út úr okkar sóknaraðgerðum og vörnin var léleg á sama tíma svo Keflavík tekur leikinn bara í þriðja leikhluta,” sagði Örvar Þór Kristjánsson þjálfari Fjölnis eftir ósigur sinna manna gegn Keflavík í Iceland Express deild karla í kvöld. Eftir tapið er Fjölnir í 9. sæti deildarinnar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn í vetur sem Fjölnir lendir í því að láta ýta sér svona út úr sínum aðgerðum, er þetta áhyggjuefni fyrir ykkur?
,,Þetta er eitthvað sem gerst hefur núna í tveimur leikjum, höfum farið yfir inn í hálfleik og lent svo í slæmum þriðja leikhluta. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að laga, þessir strákar mínir eru ungir og þetta fer í reynslubankann en við vorum að tapa á móti frábæru liði svo ég hef engar áhyggjur heldur er ég ánægður með baráttuna hjá mínu liði þó við værum komnir í hyldýpið í þriðja leikhluta þá héldum við áfram allt til leiksloka,” sagði Örvar sem í næstu umferð mun stýra Fjölni gegn uppeldisfélagi sínu Njarðvík, verða blendnar tilfinningar þar á ferðinni?
,,Það verður bara gaman og Njarðvíkingar eru væntanlega hátt uppi núna eftir góðan sigur í bikarnum gegn Stjörnunni og við ætlum bara að fara þangað til að vinna.”