Fjölnismenn fara í jólafrí í 6. sæti deildarinnar eftir frækinn þriggja stiga sigur á Njarðvíkingum í Iceland Express deild karla í kvöld. Karfan.is ræddi við Örvar Þór Kristjánsson þjálfara Fjölnis um sigurinn á uppeldisfélagi sínu Njarðvík.
,,Þetta var flottur leikur hjá mínum mönnum, við mætum virkilega tilbúnir og erum mun betra liðið í fyrri hálfleik. Leysum pressuvörn UMFN vel og gott flæði í leik liðsins. Í seinni hálfleik þá koma Njarðvíkingar dýrvitlausir inn og Elvar Friðriksson ,,bombar" þá aftur inní leikinn. Við gerum hinsvegar vel og klárum þetta með stæl, sanngjarn sigur að mínu mati á erfiðum útivelli,“ sagði Örvar sem ætlar ekki að bæta við þriðja erlenda leikmanninum í Dalhús.
,,Við erum mjög sáttir með gang mála til þessa, deildin er jöfn og spennandi eins og það á að vera en við ætlum ekki að bæta við okkur erlendum leikmanni. Það er ekki inn í myndinni enda treystum við þessum hóp fullkomnlega til þess að ná settum markmiðum. Ég hef mikla trú á þessum drengjum og við ætlum að halda áfram að bæta okkur með hverjum leik.“