spot_img
HomeFréttirÖrvar lagði uppeldisfélagið fyrir jól

Örvar lagði uppeldisfélagið fyrir jól

Örvar Þór Kristjánsson stýrði sínum mönnum í Fjölni í kvöld til útisigurs gegn uppeldisfélagi sínu Njarðvík en leikurinn fór fram í Ljónagryfjunni. Lokatölur urðu 79-82 í leik spennandi leik þar sem úrslitin réðust undir lokin.
 
 
Njarðvíkingar lentu fljótlega undir gegn sprækum Fjölnismönnum en staðan var 16-24 að loknum 1. leikhluta, eftir að Ólafur Helgi Jónsson setti niður flautuþrist. Þá var Cameron Echols kominn með 8 stig, en Njarðvíkingar leituðu mikið til hans.
 
Erfiðlega gekk að finna leiðina að körfu Fjölnismanna og í hálfleik voru Njarðvíkingar aðeins komnir með 36 stig. Aftur setti Ólafur Helgi þrist þegar að bjallan glumdi og klóraði í bakkann, staðan 36-49 Fjölnismönnum í vil þegar gengið var til búningsklefa. í hálfleik var Echols atkvæðamestur Njarðvíkinga með 14 stig en þeir Maciej Baginski og Travis Holmes voru einnig liðtækir í sóknarleiknum.
 
Það voru læti í Njarðvíkingum þegar seinni hálfleikur hófst og fyrstu þrjár sóknir Fjölnismanna voru stöðvaðar með stolnum boltum og vörðu skoti. Stúkan tók þá við sér og það virtist Travis Holmes einnig gera. Hann byrjaði að keyra að körfunni og munurinn minnkaði óðum. Staðan var 43-51 þegar 4 mínútur voru liðnar af 3. leikhluta og leikhlé hjá Fjölnismönnum. Það var sem að þessi neisti sem Njarðvíkingar komu með úr búingsklefanum í hálfleik hefði slökknað og Fjölnismenn náðu upp 15 stiga forskoti þegar skammt var eftir af 3. leikhluta. Njarðvíkingar voru að gera mikið af klaufalegum mistökum á þessum tíma leiksins.
 
Leikstjórnandinn Elvar Friðriksson vaknaði svo skyndilega til lífsins og setti tvær þriggjastiga körfur í röð og spilaði félaga sína vel uppi. Elvar setti svo eina neðan úr Biðskýli þegar leikhlutinn var að renna út og Maciej náði að stela boltanum og fiska villu í kjölfarið. Hann setti niður vítaskotin og munurinn 7 stig þegar haldið var inn í lokaleikhlutann.
 
Elvar var orðinn funheitur á þessum tímapunkti og splæsti í eina fallega þriggjastiga í viðbót. Cameron Echols jafnaði loks leikinn í fyrsta sinn í leiknum, eða frá því að staðan var 0-0. Þá voru 8 mínútur eftir á leikklukkunni og komin fín stemning í Ljónagryfjuna. Travis Holmes bauð svo upp á glæsilegan varnarleik þegar hann varði glæsilega sniðskot frá Fjölnismönnum og stuttu síðar fiskaði hann sóknarvillu. Staðan var lengi vel jöfn og virtist allt stefna í spennandi lokamínútur. Vagg og velta var að virka vel í sókninni hjá Njarðvíkingum og Cameron Echols fékk nokkrar auðveldar körfur.
 
Þegar tæplega 3 mínútur voru til leiksloka var staðan 77-77 en Fjölnismenn skoruðu þá þriggjastiga körfu sem kom þeim yfir og tíminn að verða naumur fyrir heimamenn. Elvar minnkaði muninn er 45 sekúndur voru til leiksloka niður í 1 stig en þegar Travis Holmes hugðist koma þeim yfir í næstu sókn fékk hann dæmdan á sig ruðning. Leikhlé var tekið þegar 26 sekúndur voru eftir og staðan 79-80 fyrir Fjölnismenn sem áttu boltann.
 
Þeir létu leiktímann líða þangað til að 9 sekúndur voru eftir, þá brutu Njarðvíkingar loks á þeim. Calvin O´Neal sett niður tvö víti og kom Fjölni í 79-82. Þá tóku Njarðvíkingar leikhlé til að ráða sínum ráðum. Erfiðlega gekk að finna opið skot og að lokum fékk Maciej tækifæri langt utan af velli en skotið var vonlaust. Sigur Fjölnismann því staðreynd í mikilvægum leik fyrir bæði lið.
 
Stigin:
 
Njarðvík: Cameron Echols 24/10 fráköst, Elvar Már Friðriksson 21/4 fráköst, Travis Holmes 15/7 fráköst/5 stolnir, Maciej Stanislav Baginski 9, Ólafur Helgi Jónsson 6/4 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 4, Hjörtur Hrafn Einarsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Rúnar Ingi Erlingsson 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Styrmir Gauti Fjeldsted 0, Sigurður Dagur Sturluson 0.
 
Fjölnir: Nathan Walkup 23/5 fráköst, Calvin O’Neal 16/6 stoðsendingar, Jón Sverrisson 13/10 fráköst, Árni Ragnarsson 11, Arnþór Freyr Guðmundsson 10/6 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5, Trausti Eiríksson 4, Tómas Daði Bessason 0, Hjalti Vilhjálmsson 0, Haukur Sverrisson 0, Gústav Davíðsson 0, Halldór Steingrímsson 0.
 
Dómarar: Jón Bender, Steinar Orri Sigurdsson
 
Mynd/ Árni Ragnarsson treður fyrir Fjölnismenn
 
Mynd og umfjöllun/ Víkurfréttir, www.vf.is 
Fréttir
- Auglýsing -