Örvar Þór Kristjánsson þjálfari Fjölnis var hress með bikardráttinn í Poweradebikarkeppninni þegar Karfan.is náði í hann í dag en lærisveinar hans í Fjölni mæta einmitt Njarðvík-b sem Örvar lék með í bikarkeppninni í fyrra. Við lögðum nokkrar spurningar fyrir Örvar vegna þessa.
Fyrst af öllu, hvoru megin verður þú?
,,Báðum megin! Miðað við framistöðuna mína í fyrra hjá Njarðvík-b, spilaði einn leik í 16-liða úrslitum gegn Skallagrím og skellti 21 stigi og reif 6 fráköst og að mig minnir gaf ég stoðsendingu á Guðjón Gylfason í upphitun þá geri ég ekki ráð fyrir öðru en að mínir fyrrum félagar leiti til mín. Annað væri hneysa! Ég hef reyndar ekkert æft og ekkert spilað á þessu tímabili en tel það líklegra en ekki að ég spili nú með Njarðvík-b og þjálfi hinumegin, það hlýtur að vera í lagi! Ég finn til með mínum drengjum ef ég spila með, þeir eiga eftir að hrynja af mér eins og flugur. En svona án alls gríns þá er þetta auðvitað rosalega skemmtilegur dráttur, þarna hjá Njarðvík-b eru margir af mínum bestu vinum og frábærir leikmenn sem aldrei ber að vanmeta. Ég vona bara að allar ,,kanónurnar” spili þennan leik Brenton, Frikki Stefáns, Palli Kristins, Sævar Garðarsson, Frikki Ragg, Sverrir Þór, Ásgeir Guðbjarts og fleiri. Það er a.m.k. á hreinu að þetta verður mjög skemmtilegt verkefni.
Hver eru annars markmið ykkar í bikarkeppninni?
,,Markmið okkar er að sjálfsögðu að fara alla leið, annað væri fráleitt að segja. Við vitum það að við getum unnið alla á góðum degi en getum líka tapað fyrir flestum liðum. Við töpum gegn KFÍ fyrr í vetur og lentum í hörkuleik gegn ÍA í síðustu umferð svo er það alltaf þannig að það getur allt gerst í bikarnum. Okkur þótti vænt um að fá heimaleik og það er ekkert gefið gegn liði eins og UMFN b sem hefur reynslumikla og frábæra körfuboltamenn innan sinna raða. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir æfi stíft um jólin fram að leik enda keppnismenn sem kitlar í puttana að komast í alvöru leik. Okkar markmið eru hinsvegar skýr, við ætlum okkur alla leið og langar rosalega í úrslitaleikinn í Laugardalshöllinni og við gerum allt til þess.”
Hvað með aðrar viðureignir í umferðinni?
Það eru margir flottir leikir en aðal rimman er að sjálfsögðu leikur KR og Grindavíkur. Það var rosaleg spenna og dramatík í DHL höllinni í haust þegar meistari meistaranna fór fram og saga þessara liða undanfarin ár segir okkur það að þetta verður svakalegur leikur. Stjarnan – Snæfell er einnig mjög áhugaverður leikur, Stjörnumenn slógu Snæfell út úr Íslandsmótinu í fyrra og Hólmarar tóku svo Stjörnumenn úr Lengjubikarnum svo þarna verður mikill slagur tveggja flottra liða. Tindastóll-Þór Þorlákshöfn er svo einnig afar spennandi viðureign, Stólarnir eru að blómstra hjá Bárði og Þórsarar spilað gríðarlega vel í allan vetur. Það er mikill sjarmi yfir bikarkeppninni og ég vona að fólk fjölmenni á þessa leiki og njóti þeirrar veislu sem er framundan, tala nú ekki um ef kallinn fer í búninginn það yrði sannkallað augnakonfekt, fyrir guggurnar að minnsta kosti.“