spot_img
HomeFréttirÖruggur Þórssigur í fyrsta leik vetrarins

Öruggur Þórssigur í fyrsta leik vetrarins

 

?Körfuboltalið Þórs tók á móti Ármanni í fyrsta leik 1. deildar kvenna í körfubolta í leik sem fram fór í íþróttahúsi Síðuskóla.

 

 

Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik hjá Þór enda missti liðið marga sterka leikmenn fyrir tímabilið og margir óreyndir leikmenn að stiga sín fyrstu spor með meistaraflokki auk þess sem þjálfarinn þreytti frumraun sína með meistaraflokk.

 

Í dag háðu svo fjórir leikmenn Þórs frumraun sína með meistaraflokki og sú yngsta, Karen Lind Helgadóttir aðeins 13 ára og 319 daga gömul.

 

Karen lék 4:54 mínútur en náði ekki að skora en hún tók þrjú fráköst.

 

Marta Bríet Aðalsteinsdóttir er 15 ára og 172 daga gömul og spilaði einnig 4,54 mínútur en náð ekki að skora en tók eitt frákast.

 

Belinda Berg Jónsdóttir 17 ára og 42 daga gömul. Spilatími Belindu 2,39 mínútur Belinda skoraði ekki en tók eitt frákast.

 

Alexandra Ósk Guðjónsdóttir er 17 ára og 265 daga gömul. Alexandra spilaði 15:56 mínútur skoraði þrjú stig og tók eitt frákast.

 

Frábært hjá þessum ungu leikmönnum sem án efa eiga eftir að láta til sín taka innan vallar.

 

Aðeins að leiknum sjálfum.

 

Þór byrjaði leikinn betur og skoraði fyrstu níu stigin áður en gestunum tókst að skora en þá var leikhlutinn hálfnaður 9-2. Lítið var skorað næstu mínúturnar en það voru þó gestirnir sem settu niður næstu 8 stig og þegar ein mínúta lifði að öðrum leikhluta var munurinn komin í eitt stiga 9-8. En þrettán sekúndum fyrir lok fyrsta leikhluta skoraði Heiða Hlín og jók muninn aftur í 3 stig 11-8 og þannig var staðan þegar þriðji leikhluti hófst.

 

Líkt og í fyrsta leikhluta var ekki mikið skorað og tiltölulega jafnt á með liðunum en Þór leiddi mest með fjórum stigum. En þegar um tvær mínútur lifðu annars leikhluta náðu gestirnir forystu í leiknum 18-19 og var það í eina sinn í leiknum sem þeir leiddu. Staðan í hálfleik var 22-21.

 

Hittni beggja liða var afleit og greinilegt að talsvert vantar upp á spilformið hjá báðum liðum.

 

Þórsliðið kom mjög ákveðið til leiks í síðari hálfleik og með mikilli baráttu og vilja tókst stelpunum okkar að slíta sig frá gestunum og þegar um tvær mínútur voru eftir að fjórðungnum hafði Þór náð sextán stiga forskoti 43-27. Hvort lið bætti við þrem stigum og þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst hafði Þór 16 stiga forskot 46-30.

 

Í raun voru úrslit leiksins ráðin og gestirnir réðu ekkert við okkar stelpur og litlu skipti þótt Helgi Rúnar þjálfari Þórs gæfi fjórum leikmönnum spilatíma, leikmenn sem ekki höfðu áður leikið með meistaraflokki.

 

Þessir ungu leikmenn náðu að setja sitt mark á leikinn hver með sínu sniði en það sem mestu skiptir var að þær fengu spilatíma sem fer í reynslubankann hjá þeim. Þær eiga eftir að láta til sín taka síðar. Fór svo að Þór hafði sautján stiga sigur 57-40 sem verður að teljast afar sanngjarn og fyrstu stig vetrarins staðreynd og er óhætt að segja að Helgi Rúnar byrji vel í frumraun sinni með meistaraflokk.

 

Stigahæst í liði Þórs var Heiða Hlín Björnsdóttir með 21 stig Heiða tók einnig 5 fráköst. Sædís Gunnarsdóttir var með 14 stig og 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Gréta Rún var með 6 stig 8 fráköst og eina stoðsendingu. Særós Gunnlaugsdóttir 6 stig og 9 fráköst. Kristín Halla var með 4 stig 7 fráköst og eina stoðsendingu. Alexandra Ósk 3 stig og eitt frákast, Árdís Eva Skaftadóttir 3 stig 4 fráköst og tvær stoðsendingar.

 

Hjá gestunum var Sigrún Guðný stigahæst með 15 stig og 7 fráköst og Arndís Úlla með 9 stig 10 fráköst og tvær stoðsendingar.

 

Myndir (Palli Jóh)

Tölfræði

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -