spot_img
HomeFréttirÖruggur Stjörnusigur í nágrannaslag

Öruggur Stjörnusigur í nágrannaslag

Stjarnan tók í kvöld á móti Breiðabliki í fyrsta leik beggja liða í Lengjubikar karla. Staða liðanna í deildakeppninni er misjöfn, en Stjarnan trónir á toppi Domino’s deildarinnar meðan Breiðablik er í fyrstu deild.
 
Augljóst var frá byrjun hvort liðið var topplið í úrvalsdeild. Þrátt fyrir góða baráttu Kópavogsbúa voru Stjörnumenn einfaldlega allt of stór biti fyrir þá grænklæddu.
Stjörnumenn gátu leyft sér að hvíla lykilmenn á borð við Marvin Valdimarsson og Justin Shouse, sem hafa farið mikinn í upphafi Domino’s deildarinnar. Það kom þó ekki að sök og Stjarnan innbyrti afar öruggan 96-68 sigur gegn nágrönnum sínum úr Kópavogi.
 
Stigahæstur Stjörnunnar var Brian Mills með 18 stig, auk þess sem kappinn tók 8 fráköst og varði 4 skot. Þá setti Dagur Kár Jónsson 16 stig og gaf 8 stoðsendingar og hinn fjallmyndarlegi, en þó grímuklæddi Kjartan Atli Kjartansson lék einnig vel með 16 stig. Hjá blikum var Þorsteinn Gunnlaugsson langatkvæðamestur með 28 stig, auk þess sem hann bætti við 14 fráköstum.
 
Stjörnumenn byrja því vel í Lengjubikarnum þetta árið, en Blikar munu án efa fá góða reynslu af þessu móti.
 
 
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
Fréttir
- Auglýsing -