Öruggur sigur Tindastóls í Síkinu

Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á móti Keflavík í fyrsta heimaleiknum í Subway deild karla í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Keflvíkingar höfðu lagt Blika í fyrstu umferð og Stólar gerðu góða ferð í Forsetahöllina og náðu í sigur gegn nýliðunum í Álftanesi.

Gestirnir byrjuðu mun betur í leiknum í kvöld og heimamenn voru mistækir í sókninni. Sérstaklega var Adomas Drungilas hálf-sofandi, tapaði boltum og klikkaði á auðveldum færum. Keflavík gekk á lagið og unnu leikhlutann 19-23, ekki síst með góðri frammistöðu Jaka Brodnik. Heimamenn þéttu sinn leik í öðrum leikhluta og voru fljótir að saxa á forskot gestanna. Stólar komust svo yfir með þristi frá Orra Svavars við mikinn fögnuð gesta í Síkinu. Heimamenn komust mest 11 stigum yfir en Keflavík klóraði í bakkann og staðan 47-40 í hálfleik.

Gestirnir hófu seinni hálfleik með góðu 0-6 áhlaupi og voru búnir að jafna 49-49 eftir rúmar 2 mínútur. Heimamenn vöknuðu og náðu aftur undirtökunum og eftir að liðin höfðu skipst á þristum náðu Stólar sér í 6 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Góð karfa frá Drungilas og átta stig í röð frá Tóta komu heimamönnum svo í þægilega 85-72 stöðu þó enn væru rúmar 7 mínútur eftir. Þrátt fyrir nokkra dauðakippi frá Keflavík komust Stólar í 20 stiga forystu 100-80 þegar rúmar 2 mínútur voru eftir og leikurinn búinn.

Þórir Guðmundur átti frábæran leik hjá Tindastól og endaði með 28 stig, 11 stoðsendingar og 12 fráköst, algerlega óstöðvandi. Callum bætti við 22 stigum og 9 fráköstum og Geks spilaði flotta vörn allan leikinn. Hjá gestunum var Jaka stigahæstur með 20 stig en þeir fóru halloka í frákastabaráttunni, tóku 34 gegn 49 hjá Stólum. Verðskuldaður sigur heimamanna sem voru þó án Péturs Rúnars og Ragnars Á

Tölfræði leiks

Myndasafn (Sigurður Ingi)

Umfjöllun / Hjalti Árna

Viðtöl / Bogi Sigurbjörnsson