spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÖruggur sigur Þróttar á Flúðum

Öruggur sigur Þróttar á Flúðum

Leikur Hrunamanna gegn Þrótti á Flúðum var lengst af leikur kattarins að músinni. Þróttararnir voru miklu betri en gestgjafarnir og unnu öruggan sigur 78-106.

Hrunamenn náðu að halda í við Þrótt í fyrri hálfleik, náðu með elju að vinna upp forskot sem Þróttur hafði búið sér til í upphafi leiks og næstum náð að jafna leikinn en Þróttur svaraði áhlaupinu og leikmenn liðsins fóru til búningsherbergjanna með 10 stiga forskot. Þróttur sótti gjarnan að körfunni í gegnum miðja vörn Hrunamanna. Því vörðust Hrunamennirnir ágætlega en Þróttur fann þá aðrar leiðir til að skora. Arnaldur Grímsson var fullur sjálfstrausts og hitti vel. Hann skoraði 21 stig fyrir Þrótt í fyrri hálfleik og 29 stig samtals.

Í upphafi síðari hálfleiks mætti Þróttur af miklum krafti til leiks. Upplegg þjálfarans var allt annað en liðið hafði leikið eftir í fyrri hálfleiknum og breytt leikplanið kom Hrunamönnum bersýnilega í opna skjöldu. Allt lið Þróttar pressaði allan völlinn fyrstu mínútur 3. fjórðungs og pressan breyttist í svæðisvörn ef Hrunamenn leystu pressuna. Herbragðið heppnaðist. Sóknirnar voru stuttar, þriggja stiga skot um leið og færi gafst til að skjóta eða hraðaupphlaup. Fyrstu þristarnir rötuðu rétta leið og við það myndaðist mikil stemmning í liðinu, bæði á vellinum og á bekknum, sem slökkti í heimamönnum.

Leikmenn Þróttar tóku fast á Hrunamönnunum og fengu margar villur dæmdar á sig í leiknum. Þær dreifðust tiltölulega jafnt á flesta leikmenn liðsins svo enginn þeirra var í teljandi villuvandræðum. Harka Þróttaranna á sjálfsagt þátt í að búa til þá samstöðu og baráttu sem var í leikmannahópnum. Ekkert var einfalt fyrir heimamenn, þeir þurftu að hafa fyrir öllum stigunum 78.

Eyþór Orri, fyrirliði Hrunamanna, var eini leikmaður liðsins sem sýndi verulegan baráttuhug og leikgleði. Aleksi og Chance skiluðu þó drjúgu framlagi; Aleksi tók 15 fráköst og skoraði 18 stig og Chance tók 14 fráköst og skoraði 30 stig.

Jón Arnór Sverrisson lék mjög vel fyrir Þrótt. Hann sér völlinn einstaklega vel og sendingar hans eru allar góðar. Það er mikil yfirvegun í leik hans. Magnús Traustason var líka góður sem og Arnaldur Grímsson sem skemmti liðsfélögum sínum og stuðningsmönnum Þróttar með þriggja stiga körfum og tilþrifamiklum troðslum. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -