spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur hjá Spurs í þriðja leik (Umfjöllun)

Öruggur sigur hjá Spurs í þriðja leik (Umfjöllun)

Til að eiga séns í þessari seríu var ekkert vafaatriði að San Antonio Spurs urðu að vinna leik þrjú eftir að hafa misst frá sér heimavallarréttinn í leik tvö. Leikmenn Spurs svöruðu kallinu og héldu sýnikennslu í sóknarleik í fyrsta leikhluta. Mölbrutu aftur varnir Miami ítrekað og hittu hvað eftir annað úr skotum utan að velli. Leikmenn Miami voru hreinlega ráðalausir á meðan á ósköpunum dundi.
 
Spurs skoruðu hvorki meira né minna en 41 stig í fyrsta leikhluta. Skilvirknin var frammúrskarandi eða 181,42 stig per 100 sóknir. Allir voru að hitta. Tony Parker og Tim Duncan voru þeir einu sem klikkuðu á einu skoti hvor.
 
Mestu munaði um framlag Kawhi Leonard í sóknarleik Spurs í þessum leik. Hann sprakk út strax frá fyrstu mínútu. Setti niður 10 stig snemma og í stöðunni 18-10 fyrir Spurs var hann jafn öllu Miami liðinu í stigaskori. Kawhi endaði 10/13 í skotum og þar af 3/6 í þristum. Kawhi slakaði heldur ekkert á í vörn heldur stal tveimur boltum og varði tvö skot. Hann þvingaði einnig ansi marga tapaða bolta af LeBron James en hann dekkaði besta körfuboltamann jarðríkis nánast allan leikinn. Það er ekki létt verk en hann leysti það með afburðavel. Kawhi hafði orð á því í hálfleik að Popovich þjálfari hafi beðið hann um að drífa sig inn á völlinn og spila smá körfubolta til tilbreytingar, sem hann og gerði… heldur betur.
 
Í öðrum hluta hægðist aðeins á Spurs liðinu en þó ekki meira en svo að þeir enduðu hálfleikinn með 71 stig á töflunni á móti 50 frá Heat sem er met. Nýtingin hjá Spurs í fyrri hálfleik var um 70%.
 
Í hálfleik gaf Eric Spoelstra, þjálfari Heat leikmönnum sínum einfaldar leiðbeiningar. Það þyrfti að herða vörnina til muna og að saxa niður muninn um 11 stig. LeBron og félagar svöruðu kallinu og skelltu í lás. Spurs skoruðu aðeins 15 stig í þriðja hluta á móti 25 frá Heat. Spurs fengu ekki sömu gæðaskotin og í fyrri hálfleik auk þess sem þeir þjöppuðu teiginn í hvert skipti sem boltinn rataði þangað inn – ólík því sem gekk á í fyrri hálfleik.
 
Heat náði að saxa niður muninn hægt og rólega og voru komnir niður fyrir 10 stigin í upphafi fjórða hluta og nóg eftir af leiknum. Spurs hins vegar tóku að rífa sig upp um miðbik fjórða hluta og spila eins og menn aftur. Frábær innkoma frá Patty Mills þrátt fyrir lítið stigaskor átti þar þátt í. Kawhi Leonard tók einnig sóknartaktinn alveg frá LeBron James á þessum tíma og það munaði um minna.
 
Kawhi leiddi sína menn til sigurs með 29 stig, Parker og Green bættu við 15 stigum hvor og Duncan setti 14. 
 
LeBron James skilaði sínu þrátt fyrir að vera með Kawhi Leonard í nærbuxunum allt kvöldið. 22 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar frá kónginum en 7 tapaðir boltar, flestir í boði Kawhi, settu strik í reikninginn. Wade setti einnig 22 stig og Rashard Lewis, sem hefur hent Shane Battier út úr byrjunarliðinu, bætti við 14. 
 
Popovich fór grjótharður inn í small-ball uppsetningu í upphafi leiks með Boris Diaw í miðherjanum og Splitter á bekknum. Það virtist virka því sóknin hjá Spurs var mun liprari og hraðinn meiri. Nokkuð sem Spurs hefðu getað fengið strax í andlitið aftur því þannig vilja Heat spila, en þetta skilaði engu að síður árangri.
 
 
Fylgist með Ruslinu á:
 
 
Fréttir
- Auglýsing -