spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur gegn Noregi

Öruggur sigur gegn Noregi

Undir 16 ára stúlknalið Íslands hafði betur gegn Noregi á Norðurlandamótinu í Kisakallio í Finnlandi, 67-84. Leikurinn var sá fyrsti sem liðið leikur á móti þessa árs, en það stendur til 6. júlí næstkomandi.

Fyrir leik

Þetta lið Íslands tók þátt í opnu Norðurlandamóti undir 15 ára síðasta sumar í Kisakallio. Þar gerði liðið gífurlega vel og vann þrjá leiki af fimm, þar á meðal lið Þýskalands, sem seinna vann mótið.

Gangur leiks

Íslenska liðið mætir áræðið til leiks. Pressa stíft á norska liðið og uppskera sterkt 9-0 áhlaup á upphafsmínútunum. Þær norsku ná aðeins að spyrna við, en fyrsti leikhlutinn er þó nokkur einstefna, staðan 4-13 fyrir annan fjórðung. Ísland er áfram með góð tök á leiknum undir lok fyrri hálfleiksins. Fara mest með forystu sína í 18 stig, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 13 stig, 23-36.

Stigahæstar fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Arna Eyþórsdóttir með 9 stig og Sigrún Brjánsdóttir með 8 stig.

Íslenska liðið nær að láta kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins. Gera nánast útum leikinn er þær fara mest 29 stigum yfir. Norska liðinu gengur þó betur að koma stigum á töfluna þegar líður á þann þriðja, en Ísland nær að halda forystu sinni í kringum 20 stigin lengst af í fjórðungnum. Munurinn 19 stig fyrir lokaleikhlutann, 41-60.

Eftirleikurinn virtist auðveldur fyrir íslenska liðið. Þær norsku leyfðu þeim þó ekkert að slaka á undir lok leiks. Niðurstaðan að lokum þó nokkuð öruggur sigur Íslands, 67-84.

Kjarninn

Íslenska liðið var einfaldlega komið skrefi lengra heldur en liðið sem það mætti í dag. Gerðu gífurlega vel varnarlega á löngum köflum og það í samvinnu við mikla baráttugleði skóp þennan sigur. Gerðu einnig vel að hleypa Noregi aldrei inn í leikinn í seinni hálfleiknum.

Atkvæðamestar

Berglind Hlynsdóttir var best í liði Íslands í dag. Frábær varnarlega og þá skilaði hún 18 stigum, 6 fráköstum, 2 stoðsendingum og 2 stolnum boltum. Arna Eyþórsdóttir var einnig atkvæðamikil með 19 stig, 4 fráköst og 4 stolna bolta. Þá fékk íslenska liðið góða innkomu af bekknum frá Arnheiði Ólafsdóttur, en á tæpum 17 mínútum spiluðum var hún með 14 stig og 4 fráköst.

Hvað svo?

Næst á liðið leik á morgun miðvikudag 2. júlí gegn Svíþjóð kl. 13:45 að íslenskum tíma.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -