spot_img
HomeFréttirÖruggur rauður sigur

Öruggur rauður sigur

Haukar tryggðu sér sætið í bikarúrslitum KKÍ með afar sannfærandi sigri á Njarðvík í kvöld 73-41. Sigur Hauka var mjög öruggur og ótrúlegt að Njarðvíkingar hafi ekki veitt meiri mótspyrnu en þær gerðu í raun miðað við að sæti í Höllinni gegn grönnum sínum úr Keflavík var í húfi.
Það voru Njarðvíkingar sem áttu fyrstu körfu leiksins en hana gerði Sigurlaug Guðmundsdóttir með þriggja-stiga skoti. Haukastelpur settu næstu sex stigin áður en Njarðvík náðu góðu áhlaupi þegar þær skoruðu átta stig í röð. Fyrst setti Sigurlaug sinn annan þrist og þá skoruð þær Shantrell Moss tvö stig og Ólöf Helga Pálsdóttir þrjú stig, sniðskot og eitt af línunni. Njarðvíkingar í ágætum málum og allt stefndi í hörkuleik. En þá kom hörkuleikkafli hjá Haukum þar sem þær skoruðu 17 stig í röð og staðan orðin 23-11 fyrir Hauka í upphafi annars leikhluta. En þá náði Heiða Valdimarsdóttir að setja þriggja-stiga skot og stöðva þessa miklu hrinu Haukakvenna.
 
Njarðvíkingar urðu fyrir áfalli á þessum leikkafla Haukakvenna þegar Sigurlaug Guðmundsdóttir þurfti að yfirgefa völlinn meidd en hún sýndi í kvöld hve mikilvæg hún er þessu liði. Sigurlaug kom inn á í seinni hálfleik þegar hún hafði teipað sig.
 
Á þessum kafla misstu Njarðvíkingar leikinn frá sér og virtust um leið missa alla trú á verkefninu. Munurinn var þó ekki nema 12 stig en það sást á leik þeirra grænu að þær virtust ekki líklegar til að berjast til þess að komast aftur inn í leikinn.
 
Haukaliðið var eins og vél sem jók muninn jafnt og þétt og var hann orðinn 20 stig í hálfleik 44-24.
 
Seinni hálfleikur var aldrei annað en formsatriði fyrir heimastúlkur. En þrátt fyrir mikin mun börðust þær allan tímann og voru að skutla sér á eftir lausum boltum með þriggja-stiga sigur innan seilingar og var það til fyrirmyndar. Slíka baráttu þurftu Njarðvíkingar á að halda í fyrri hálfleik þegar leikurinn var opin.
 
Besti leikmaður Hauka var eins og svo oft áður Heather Ezell en hún hafði hægt um sig í stigaskorun í kvöld með aðeins 16 stig en Kiki Lund var stigahæst með 18 stig. Heather Ezell var samt sem áður áberandi í tölfræðinni en hún gaf 10 stoðsendingar, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Turnarnir tveir í liði Hauka Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Telma Fjalarsdóttir voru með 11 og 6 fráköst hvor og Ragna Margrét setti 9 stig að auki. Haukaliðið í heild sinni spilaði mjög vel enda mótspyrnan afar lítil á stórum kafla í leiknum.
 
Stigahæst hjá Njarðvík var Shantrell Moss með 16 stig og Ólöf Helga Pálsdóttir var með 8 stig og barðist af krafti en það var ekki nóg í kvöld. Sigurlaug Guðmundsdóttir skoraði 6 stig en þau komu öll á fyrstu mínútum leiksins.
 
Mikið andleysi einkenndi lið Njarðvíkur sem ákvað eftir ósigur kvöldsins að láta erlenda leikmann liðsins fara en vonandi er það lausnin sem Unndór þarf á að halda en liðið er í baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Þær standa þó vel að vígi um lokasætið í úrslitakeppninni en eitt eða tvö töp geta þó breytt ýmsu.
 
Mynd: Kiki Lund á flugi í gegnum teigin – Tomasz Kolodziejski
 

Fréttir
- Auglýsing -