Keflvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með gesti sína Hauka í kvöld þegar liðin mættust í Toyotahöll þeirra Keflvíkinga. 101:88 voru lokatölur og áttu Haukar ágætis spretti undir lok leiks en komus aldrei nálægt því að eiga möguleika á sigri.
Leikurinn var tilturlega jafn framan af og mikið var skorað í fyrsta fjórðung en staðan eftir hann var 22:17 heimamönnum í vil. Annar fjórðungur var nánast copy/paste af þeim fyrsta. Keflvíkingar höfðu tögl og haldir í leiknum og voru búnir að byggja sér upp 13 stiga forystu þegar flautað var til hálfleiks, 45:32.
Lítið fór fyrir varnarleik hjá liðunum í þriðja fjórðung. Bæði lið virtust nánast skora að vild en sem fyrr voru það Keflvíkingar sem skoruðu alltaf örlítið meira en Haukarnir. Snemma í fjórða fjórðung fékk Semaj Inge sína fimmtu villu fyrir afskaplega lítið og brot ef þá brot mætti kalla. Þessi dagsprúði drengur var afar óheppinn með villur sínar í þessum leik og fékk hann meira segja dæmda á sig tæknivillu fyrir það sem hafði gengið á hjá leikmönnum beggja liða allan leikinn. Eftir þetta fóru Keflvíkingar að hlusta eftir því að "sú feita" færi að hefja upp raust sína. En Haukarmenn voru aldeilis ekki á því og virtust tvíeflast.
Þrátt fyrir þetta "mini" vanmat þeirra Keflvíkinga þá kláruðu þeir leikinn nokkuð sannfærandi og sitja nú í 4. sæti með 8 stig eftir 7 umferðir. Haukarnir eru í 6. sæti en umferðin klárast á morgun með nokkrum leikjum. Hörður Axel var með svokallaða tröllatvennu í 20 stigum og 15 stoðsendingar. Að vera mættur hangandi á hurðahúninum á morgnanna í íþróttahúsið er vissulega að skila sér hjá drengnum, í það minnsta ef tekið er mið af þessum leik. Gamla brýnið Gunnar Einarsson var honum næstur í stigaskorun með 21 stig. Hjá Haukum var það Gerald Robinson sem nýtti sér vel vanmat Keflvíkinga undir lok leiks og skoraði grimmt. Hann endaði leik með 28 stig. Semaj Inge endaði leik með 17 stig og tvö af þeim af þriðju hæð í traffík eftir "alley oop" sendingu frá Davíð Hermannssyni. Vissulega hápunktur þessa kvöld.