spot_img
HomeFréttirOrri leikur fyrir Cardinal Strich í bandaríska háskólaboltanum "Búið að vera markmiðið...

Orri leikur fyrir Cardinal Strich í bandaríska háskólaboltanum “Búið að vera markmiðið mitt seinustu 3 ár og það er frábært að ná því””

KR-ingurinn Orri Hilmarsson hélt vestur um haf fyrir tímabilið og gekk til liðs við Cardinal Strich University Wolves í bandaríska háskólaboltanum. Wolves leika í Chicagoland deild NAIA hluta háskólaboltans, en skólinn sjálfur er staðsettur í Milwaukee, Wisconsin.

Orri, sem er nýorðinn 21. árs gamall, lék upp alla yngri flokka og með meistaraflokki KR áður en hann hélt út, en þá hafði hann einnig verið með Breiðablik tímabilið 2017-18 og nú síðast Fjölni í Dominos deildinni tímabilið 2019-20. Á sínu síðasta tímabili áður en hann hélt út skilaði hann 8 stigum, 2 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik með Fjölni í Dominos deildinni. Þá hefur Orri einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Það sem af er tímabili hefur Orri aðeins náð að leika fjóra leiki með Wolves, en öllum leikjum frá 21. nóvember var aflýst vegna heimsfaraldurs Covid-19. Næsti leikur liðsins er gegn Saint Xavier University í Chicago þann 2. janúar 2021.

Orri átti fína leiki fyrir Wolves í þessum fjórum leikjum sem náðust í fyrri hluta nóvember, þrátt fyrir að leikirnir hafi allir tapast. Spilaði að meðaltali rétt undir 30 mínútum í leik og skilaði á þeim 9 stigum, 3 fráköstum, 3 stoðsendingum og 2 stolnum boltum.

Karfan heyrði í Orra og spurði hann út í hvernig honum hefði gengið í upphafi móts.

Hvernig er að vera kominn út í háskólaboltann?

“Mér finnst geggjað að vera kominn út í college í bandaríkjunum. Þetta er búið að vera markmiðið mitt seinustu 3 ár og það er frábært að ná því”

Hvernig er stemming í Milwaukee?

“Stemningin er öðruvísi en ég bjóst við, en það er mest megnis útaf covid, mjög fáir í skólanum”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?

“Körfuboltinn er miklu hraðari en heima. Tók mig smá tíma að aðlagast að hraðanum. Miklu meiri hlaup á æfingum en það er bara fínt”

Mikið af frestunum hjá þér vegna Covid-19, væntanlega svekkjandi að fá ekki að spila?

“Erum búnir að spila 4 leiki (einn æfingaleik og 3 utan conference leiki) sem er betra en ekkert”

Hver eru svona helstu markmiðin fyrir veturinn?

“Helstu markmiðin eru að halda byrjunarliðssætinu og halda áfram að bæta mig”

Fréttir
- Auglýsing -